fbpx
Föstudagur, október 4, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífHvaða drauma hefur þú í lífinu?

Hvaða drauma hefur þú í lífinu?

Margrét Lilja Vilmundardóttir skrifar

Á haustin, við upphaf fermingar­fræðslu Fríkirkjunnar í Hafnarfirði, spyrj­um við fermingarbörnin hvaða drauma, væntingar og markmið þau hafa í lífinu? Eins og við er að búast eru svörin jafn fjölbreytt og börnin eru mörg. Svörin fara úr því að vera nákvæmlega útlistuð markmið um að verða læknar, atvinnufótboltafólk og flugmenn, eignast þrjú krúttleg börn, labrador hund og góðan maka yfir í svarið IDK. Fyrir þá sem ekki vita þýðir IDK, I don‘t know eða ég veit það ekki. Þetta er heiðarlegt svar og tengist fermingar­fræðslunni með mikilvægum hætti.

Í fermingarfræðslunni fjöllum við um alla heima og geima og tökum á málefnum sem brenna á samfélaginu á hverjum tíma. Við fjöllum um það hvað það er að vera manneskja í stundum flóknum heimi, við fjöllum um samskipti við annað fólk, virðingu fyrir okkur sjálfum og öðrum. Drauma, væntingar og markmið. Við fjöllum um umhverfismál, trú, efa og Guð. Hvað er Guð og hvað er trú? Við fjöllum um sorg og áföll og það þegar lífið fer kannski aðeins öðruvísi en við höfðum planað. Við ræðum erfiðu og flóknu málin rétt eins og þau skemmtilegu og auðleysanlegu og það er mikilvægt.

Í fermingarfræðslunni er markmiðið að byggja upp sterka, unga einstaklinga sem hvíla örugg í sjálfu sér og hafa góðan grunn til að takast á við lífið í sinni fjölbreyttu mynd. En hvernig byggjum við upp góðan grunn? Það gerum við með trúnni, sem veitir styrk, hugrekki, kærleika og gleði. Fullvissu um að við erum elskuð fyrir það eitt að vera við sjálf. Við erum elskuð af Guði og þurfum aldrei að ganga ein í lífinu.

Í fermingarfræðslu Fríkirkjunnar í Hafnarfirði hittum við ungmenni á leiðinni út í lífið. Fermingarveturinn er bara upphafið á langri vináttu, þar sem við hlæjum saman, spáum, spekúlerum og kynnumst. Eigum síðan dásamlega stund saman á fermingardaginn. Svo heldur lífið áfram og við hittumst aftur óvænt í búðinni og í sundi, á leiðinni í próf og úr vinnu. Á förnum vegi hittumst við og tökum spjall og ræðum lífið. Við hittumst aftur á sólríkum degi í skírn eða giftingu – grátum saman þegar dimmir og göngum hlið við hlið þegar við þurfum mest á því að halda. Það er vináttan sem hefst við upphaf fermingarstarfsins í Fríkirkjunni í Hafnarfirði. Við þurfum nefnilega ekki að ganga ein í lífinu.

Margrét Lilja Vilmundardóttir,
prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2