Í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir að 406,6 milljónum króna verði varði til menningarmála sem er 2% af áætluðum skatttekjum.
Að meðaltali hefur bæjarfélagið nýtt 2,52% af skatttekjum til menningarmála á síðustu 8 árum. Lægst var hlutfallið árið 2013, 2,15% en hæst árið 2008, 3,15%.
Væri framlagið í takt við meðalhlutfall af skatttekjum síðustu 8 ára væri gert ráð fyrir 512,4 millj. kr. til menningarmála eða 105,8 millj. kr. meira en nú.
Akureyringar settu 350 milljón kr. meira í menningarmálin!
Á Akureyri búa um 18.400 manns eða um 10.000 færri en í Hafnarfirði. Samt lögðu Akureyringar 726,5 millj. kr. til menningarmála á sama tíma og Hafnarfjarðarbær lagði 376 millj. kr. Hefur þá verið tekið tillit til tekna og styrkja sem eru mun hærri á Akureyri. Á meðan Akureyri leggur til 39.604 kr. á hvern íbúa til menningarmála þá leggur Hafnarfjarðarbær aðeins 13.336 kr. á hvern íbúa.
Bókasafnið fær mest
Bókasafn Hafnarfjarðar er sú menningarstofnun sem hefur hæstar sértekjur. Samt er gert ráð fyrir að leggja 170 milljónir kr. til safnsins eða um 42% af öllu ráðstöfunarfé til menningarmála. Alls koma um 130 þúsund gestir á ári í bókasafnið og fá lánaðar 230 þúsund einingar. Er þetta um 15% fækkun á útlánum frá 2010 en þau hafa verið stöðug síðustu ár.
Alls fara 103 millj. kr. til Hafnarborgar á næsta ári eða um fjórðungur af öllu því fé sem ráðstafað er til menningarmála. Í Hafnarborg komu um 18.700 gestir á síðasta ári og þar af um 5.300 á tónleika og aðra viðburði.
Áætlað er að 64 millj. kr. fari í rekstur Byggðasafnsins eða tæp 16%.
20 milljónir kr. greiðast til Gaflaraleikhússins skv. samningi eða um 4,9%.
12 milljónir kr. eru áætlaðar til Jólaþorpsins eða tæp 3%.
Að auki er gert ráð fyrir að 21 millj. kr. til atvinnu- og ferðamála sem Markaðsstofa Hafnarfjarðar sinnir að hluta og fær 10 milljónir fyrir skv. samningi. (uppfært 16.12.)
Ekki er skilmerkilega gerð grein fyrir þeim 38 milljónum sem eftir standa í greinargerð með fjárhagsáætluninni.
Úrelt erindisbréf
Menningar- og ferðamálanefnd fer með umsjón menningarmála í Hafnarfirði í umboði bæjarráðs. Skv. erindisbréfi starfar hún með menningar- og ferðamálafulltrúa en það starf hefur verið lagt niður. Erindisbréfið hefur ekki verið uppfært en nú starfar það undir bæjarráði en ekki fjölskylduráði eins og þar kemur fram. Nefndin starfar nú með sviðsstjóra stjórnsýslusviðs en einnig með safnstjóra Hafnarborgar sem fer nú með hluta af málefnum menningarmála til viðbótar við starfsemi Hafnarborgar og forstöðumanni Markaðsstofu Hafnarfjarðar.
Sjá nánar í Fjarðarfréttum sem dreift var í hús í gær.