Eyrún og Gussi í Trúðamatarboðinu

Útvarpsleikrit eftir hafnfirska leikara

Eyrún Ósk og Gunnar

Leikararnir Eyrún Ósk Jónsdóttir og Gunnar Jónsson, betur þekktur sem Gussi, voru að senda frá sér „útvarpsleikrit“ sem nefnist Trúðamatarboð sem fjallar um hjón sem undirbúa matarboð í miðju samkomubanni en hlutirnir fara öðruvísi en þau ætla sér.

„Þetta er svona létt grín með alvarlegum undirtóni og þemað er bara þessir skrítnu tímar. Þegar við sáum fram á að við gætum ekki haldið venjulega leiksýningu út af ástandinu þá langaði okkur að gera eitthvað sem fólk gæti hlustað á heima, heimaleikhús, og þá datt okkur í hug að það væri kominn tími á „comeback“ fyrir útvarpsleikhúsið,“ segir Eyrún.

Leikritið var spunnið, samið og æft í gegnum netið, í samkomubanni.

„Við erum mjög spennt fyrir þessu enda verið gaman að sjá hvað hægt var að gera með aðstoð tækninnar þegar ekki mátti hittast og æfa og yndislegt að fá tækifæri til að skapa list í þessum óvenjulegu aðstæðum. Setningin „það er alltaf hægt að gera eitthvað“ er einmitt í leikritinu og hefur það verið mottó okkar í þessu ferli,“ segir Eyrún.

Leikarar og höfundar verksins eru sem fyrr segir Eyrún Ósk Jónsdóttir og Gunnar Jónsson. Leikstjóri var Hildur Kristín Thorstensen. Upptaka, klipping og önnur tæknimál voru í höndum Óskars Harðarsonar og tónlist og hljóðmynd voru eftir Ólaf Torfason.

„Við fengum frábært listafólk í lið með okkur, tónlist frá Ólafi Torfasyni og Hildur og Óskar sáu um alla tæknihliðina. Þetta hefði ekki verið hægt án þeirra. Menningarnefnd Hafnarfjarðar styrkti svo verkefnið og þökkum við kærlega fyrir það. Að lokum óskum við öllum gleðilegra jóla og vonum að fólk njóti þess að hlusta heima,“ segir Eyrún, en það hefur verið mikið um að vera hjá henni að undanförnu. Bókin hennar Guðrúnarkviða kom út fyrir skömmu, en hún fjallar um konu er vaknar upp í eigin jarðarför en kann ekki við að trufla athöfnina. Þá hefur hún verið að skipuleggja ljóðagjörning í Fríkirkjunni sem mun koma á netið á næstu dögum, auk þess sem hún lék í Ráðherranum sem var sýndur á Rúv nú á haustdögum.

Ef smellt er á hlekkinn er hægt að hlusta á útvarpsleikritið.

Leikrit 3 by EyrúnÓsk

Hjón undirbúa matarboð í miðju samkomubanni. Leikritið var spunnið, samið og æft í gegnum zoom, í samkomubanni. Leikarar og handritagerð: Eyrún Ósk Jónsdóttir og Gunnar Jónsson Leikstjórn: Hildur Kristín Thorstensen Klipping: Óskar Harðarson Tónlist og hljóðmynd: Ólafur Torfason styrkt af Menningarnefnd Hafnarfjarðar

 

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here