fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífBjörk Jakobsdóttir er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2019

Björk Jakobsdóttir er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2019

Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar var útnefndur í níunda sinn í dag

Leikkonan, leikskáldið og leikstjórinn Björk Jakobsdóttir var rétt í þessu útnefnd bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2019.

Er þetta í níunda sinn sem bæjarlistamaður er útnefndur í Hafnarfirði og fór athöfnin fram í Hafnarborg og afhenti Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Björk skjal því til staðfestingar.

„Það á vel við að leiða saman listina og vorið með því að tilkynna bæjarlistamann Hafnarfjarðar 2019 í dag á síðasta vetrardegi enda fylgir bjartsýni, gróska og kraftur bæði listinni og vorinu. Fyrir hönd Hafnfirðinga þakka ég Björk fyrir óeigingjarnt og frábært starf og vona að nafnbótin bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2019 sé hvatning til áframhaldandi góðra verka fyrir Hafnarfjörð og sérstaklega unga fólkið okkar. Það er hverju bæjarfélagi mikilvægt að eiga fólk eins og Björk, einstaklinga sem með óeigingjörnu starfi og af ástríðu leggja sitt af mörkum til að menningarlífið megi blómstra og vökva vaxtarsprotana og stuðla þar með að betra samfélagi og bjartari framtíð„ sagði Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri í ræðu sinni við afhendinguna.

Björk Jakobsdóttir bæjarlistamaður og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri. – Ljósm.: Guðni Gíslason

Björk hefur sett upp fjölmörg leikverk í Gaflaraleikhúsinu og víðar, unnið mikið með unglingu og hvatt til dáða í leiklistinni en líklega er Björk þekktust fyrir leikrit sitt Sellófón sem hún hefur farið með víða um heim við góðan orðstír. Hún stofnaði ásamt þremur öðrum Gaflaraleikhúsið við Víkingastræti árið 2011 og hafa þau rekið það síðan.

Björk Jakobsdóttir

Björk hefur, allt frá útskrift úr leiklistarskóla Íslands árið 1993, starfað að leiklistarmálum á Íslandi með höfuðstöðvar í Hafnarfirði. Strax eftir útskrift stofnaði hún, ásamt fleirum, Hafnarfjarðarleikhúsið í gamla frystihúsinu á Norðurbakkanum. Þar var rekið öflugt leikhús sem sérhæfði sig í nýjum íslenskum verkum eins og Himnaríki eftir Árna Ibsen sem vakti mikla athygli á sínum tíma. Árin eftir 2005, eftir sýningar á metsöluleikritinu Sellófon þar sem Björk fór yfir líf nútímakonunnar, vann hún mest erlendis við að leikstýra Sellófon í hinum ýmsu löndum Evrópu.

Björk stofnaði, ásamt þremur öðrum, Gaflaraleikhúsið sem hefur rekið leikhús við Víkingastræti. Þar hefur hún stýrt fjölmörgum nýjum íslenskra leikverkum. Vinna hennar með ungmennum hefur vakið verðskuldaða athygli og gert það að verkum að unglingar landsins flykkjast nú í Gaflaraleikhúsið. Björk hefur einnig verið vítamínsprautan í endurvakningu á blómlegu leiklistarlífi í Flensborgarskólanum samhliða því að bjóða unglingadeildum í grunnskólum Hafnarfjarðar upp á vandaða og öfluga kennslu í skapandi listum. Mamma Klikk eftir Gunnar Helgason í leikstjórn Bjarkar er væntanlegt til sýninga í haust í Gaflaraleikhúsinu en þegar hafa sýningar eins og Unglingurinn, Konubörn, Bakaraofninn, Stefán rís og Blakkát notið mikilla vinsælda

Nýjasta leikritið sem hún leikstýrir er Fyrsta skiptið sem sýnt hefur verið í Gaflaraleikhúsinu og víðar og fengið geysilega góðar móttökur.

Björk er Hafnfirðingur, fædd 28. desember 1966 og er gift Gunnar Helgasyni, leikara, leikstjóra, veiðimanni og rithöfundi.

Eftirtaldir hafa verið útnefndir bæjarlistamenn Hafnarfjarðar:

  • 2018 Björgvin Halldórsson tónlistarmaður
  • 2017 Steingrímur Eyfjörð myndlistarmaður
  • 2014 Andrés Þór Gunnlaugsson tónlistarmaður
  • 2009 Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, söngkona
  • 2008 Sigurður Sigurjónsson, leikari
  • 2007 Jónína Guðnadóttir, myndlistarmaður
  • 2006 Elín Ósk Óskarsdóttir, söngkona
  • 2005 Sigrún Guðjónsdóttir, Rúna, myndlistarmaður

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2