Litli Ratleikur er frír leikur sem hvetur til gönguferða um og við bæinn

Snjallsími er eina sem þarf og hægt er að taka þátt hvenær sem er.

Guðni Gíslason, höfundur leiksins og Geir Bjarnason, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar við einn af áfangastöðum leiksins í blíðviðrinu í dag þegar leikurinn hófst.

Hafnarfjarðarbær og Hönnunarhúsið ehf. hafa tekið höndum saman í samkomubanninu og gefið út Litla Ratleik í fyrsta sinn. Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er ætlaður sem hvatning til útiveru í og við byggðina í Hafnarfirði.

Var opnað fyrir leikinn formlega á Hamrinum í dag.

Þessi nýi ratleikur er með 15 stöðum til að byrja með og eina sem þarf er snjallsími eða spjaldtölva til að hafa með sér og smella ratleikur.fjardarfrettir.is og fylgja leiðbeiningum í texta og á myndum. Þátttakendur eru hvattir til að taka myndir og deila á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #LitliRatleikur

Leikurinn er gerður að beiðni Hafnarfjarðarbæjar en Guðni Gíslason, ritstjóri og skáti, hefur lagt leikinn en hann hefur lagt Ratleik Hafnarfjarðar frá 2007.

„Það er svo margt áhugavert að skoða í og við bæinn og þetta er kjörið tækifæri til að kynnast bænum betur, bæði sögu og náttúru. Leikurinn hefur alla burði til að þróast og við tækifæri verður fleiri stöðum bætt við en allar ábendingar eru vel þegnar,“ segir Guðni sem brást snarlega við og gerði leikinn á einni viku.

Markmið leiksins er að leiða þátttakendur vítt og breitt um Hafnarfjörð á tímum samkomubanns og hvatning til íbúa að njóta útivistar og náttúrunnar í heimabyggð um páskana.

Stýrihópur Heilsubæjarins Hafnarfjarðar hvetur bæjarbúa til að taka þátt í nýjum og skemmtilegum ratleik í og við byggð Hafnarfjarðar.

Geir Bjarnason íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðar segir ratleikinn frábæra leið til þess að kynnast fjölmörgum útivistarperlum bæjarins betur, leikurinn henti fyrir alla fjölskylduna og hann sé því kjörið tækifæri fyrir aukna útivist fjölskyldunnar.

Við Ástjörn

Tilvalið fjölskylduverkefni

„Ratleikurinn er tilvalið fjölskylduverkefni fyrir íbúa og vini Hafnarfjarðar og frábær hugmynd að einhverju sem hægt er að gera í heimabyggð um páskana á sínum hraða,“ segir Geir Bjarnason íþrótta- og æskulýðsfulltrúi.

„Ég hvet alla til þess að kíkja á Litla ratleikinn og komast að því hvað okkar næsta umhverfi býður uppá marga spennandi staði að heimsækja,“ segir Geir.

Ummæli

Ummæli