Hvaða 125 ára afmæli var verið að fagna?

Skólastarfi í 125 ár fagnað

Það var hátíðarsvipur yfir nemendum og kennurum Lækjarskóla föstudaginn 4. október 2002 þegar haldið var upp á 125 ára afmæli Lækjarskóla og meðfylgjandi myndir eru frá þeirri athöfn.

Samfelld röð var mynduð á milli skólabygginganna.

Lækjarskóli á sér óslitna sögu frá 1877

Lækjarskóli í Hafnarfirði, sem Hörðuvöllum sem hét áður Barnaskóli Hafnarfjarðar, og þar á undan Barnaskóli Garðahrepps, á sér óslitna sögu allt frá árinu 1877 þegar prófastshjónin á Görðum, Þórarinn Böðvarsson og Þórunn Jónsdóttir, gáfu stórfé til minningar um son sinn, Böðvar, til að koma á fót alþýðuskóla. Þetta var heimajörðin Hvaleyri með öllum húsum og jarðarnytjum og skólahúsið Flensborg með ofnum, borðum og bekkjum og öllu naglföstu; útihús úr timbri og tún girt.

Árið 1882 var stofnuð gagnfræðadeild, eða „realskóli“ eins og hann var kallaður, og er það talið upphafsár núverandi Flensborgarskóla. Árið 1902 var reistur barnaskóli við Suðurgötu sem var svo stækkaður 1921. Það sama ár var einnig reist íþróttahús skammt frá. Skólinn við Suðurgötu varð fljótlega of lítill svo að skólanefnd ákvað 1926 að reisa nýjan skóla á Gerðistúni þar sem skólahúsið stendur nú. Skipulagsnefnd ríkisins vildi að hann yrði reistur uppi á hamrinum þar sem gamla bókasafnið stendur núna en skólanefndin hafnaði því.

Hið nýja barnaskólahús var vígt sunnudaginn 2. október 1927. Íþróttahúsið sem var á lóðinni við gamla barnaskólann var flutt hingað að skólanum árið 1934 og er enn í notkun. Það var stækkað 1959 þegar bætt var við búnings- og baðklefum og tveimur kennslustofum. Árin 1945-1946 var byggt við hvorn enda skólans og síðast 1978-1980 við bakhlið hans.

Lagt var af stað frá Lækjarskóla við Skólabrú til að fagna 125 ára afmælinu

Nýtt skólahús fyrir Lækjarskóla við Hörðuvelli var svo tekið í notkun 22. ágúst 2002.

Haustið 1961 var tekinn í notkun nýr skóli í bænum, Öldutúnsskóli. Þá þótti eðlilegt að Barnaskóli Hafnarfjarðar fengi annað nafn og var honum valið nafnið Lækjarskóli. Þannig hefur þessi skóli starfað á mörgum stöðum í bænum og borið þrjú nöfn en sagan er óslitin í 143 ár.

Hátíðarhöld á 125 ára afmælinu

Þekkir þú einhvern á myndinni?

Árið 2002, þegar skólinn fagnaði 125 ára afmæli, gerðu nemendur og kennarar sér dagamun. Kennarar fóru yfir sögu skólans með nemendum og síðar var mynduð samfelld röð nemenda milli gamla og nýja skólans. Skólabjalla sem hefur verið í eigu skólans áratugum saman og var notuð þar til rafmagnsbjalla tók við var látin ganga frá gamla skólanum upp í þann nýja. Lúðrasveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar fylgdi bjöllunni og þannig var á táknrænan hátt verið að tengja húsin saman sem eina stofnun.

Skólabjallan var látin ganga á milli nemendanna.

Við nýja skólann var afmælissöngurinn sunginn og svo hélt hersingin til baka að gamla skólanum í afmælisveislu.

Nemendur og starfslið mynduðu samfellda keðju.

 

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here