Hundur fékk 80 þúsund krónur! MYNDIR

4. bekkingar í Hraunvallaskóla fræddust um komu nýs sporhunds og söfnuðu honum til styrktar

Stoltur nemandi í 4. bekk afhendir fulltrúm Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, þeim Gísla og Bryndísi styrkinn.

Þau voru spennt börnin í 4. bekk Hraunvallaskóla sl. föstudagsmorgunn þegar þau komu í morgunsárið út á fótboltavöll til að hitta fulltrúa frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar, þau Gísla J. Johnsen formann og Bryndísi Ósk Björnsdóttur, starfsmann sveitarinnar.

Voru þau að fara að afhenda afrakstur af söfnun til Pílu, nýja sporhunds Björgunarsveitarinnar, sem er á leiðinni til landsin í febrúar nk.

Hluti af lífsleikninámi

„Eitt af markmiðum í lífsleikni í 1.-4. bekk  er að nemendur átti sig á gildi samhjálpar í samfélaginu,“ segir Katrín Kristjánsdóttir umjónarkennari.

„Það er t.d. hægt að gera með því að taka þátt í einhvers konar hjálparstarfi eða leggja einhverju góðu málefni lið. Stjórnendur Hraunvallaskóla  hvöttu okkur til að gera eitthvað slíkt í aðdraganda jólanna og okkur bauðst tækifæri til að fylgjast með spennandi verkefni hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar en þar á bæ er þessa dagana verið að vinna að því að fá hingað til landsins nýjan leitarhun,“ segir Katrín.

Annar leitarhundur sveitarinnar er orðinn gamall og senn fer að líða að því að hann geti ekki leitað að fólki lengur. Hann hefur nýst við leit að fólki alls staðar á landinu um margra ára skeið.

Góðan leitarhund er ekki hægt að fá á Íslandi svo flytja þarf hann inn frá útlöndum sem er mjög kostnaðarsamt enda svona hundar ekki auðfundnir. Björgunarsveitin fann þó einn slíkan sem heitir Píla og kemur frá Spáni.

Nemendur  í 4. bekk vildu leggja sitt af mörkum til að fá Pílu til landsins. Þess vegna var ákveðið að safna flöskum og fara með í Sorpu og safna þannig peningum til að hjálpa við að koma Pílu til landsins.

Afraksturinn var svo afhentur Björgunarsveit Hafnarfjarðar formlega á fótboltavellinum eins og áður segir en í heild söfnuðust 80.000 krónur!

Fengu myndbönd með svörum um Pílu

Nemendurnir fengu  að fylgjast með undirbúningi að komu Pílu í gegnum tengilið skólans við verkefnið, hana Bryndísi, starfsmann Björgunarsveitarinnar sem bauðst til að svara fyrirspurnum bekkjarins og jafnvel koma í heimsókn til okkar þegar færi gefst. Þar sem ekki gafst færi á að fá Bryndísi í heimsókn voru spurningar sem nemendur höfuð spurt og höfðu áhuga á að vita, bæði um Pílu og komu hennar en einnig um Björgunarsveitina sjálfa, sendar til Bryndísar sem sendi svörin til baka í myndböndum sem krakkarnir horfðu á með miklum áhgua.

„Þökkum við Bryndísi fyrir skemmtileg svör og myndbönd. Takk fyrir að leyfa okkur að fylgjast með og fræðast,“ segir Katrín fyrir hönd nemenda og starfsfólks 4. bekkjar Hraunvallaskóla.

Nemendurnir spurðu Gísla og Bryndísi fjölmargra spurninga um Pílu og greinilegt var að þau höfðu sýnt þessu verkefni mikinn áhuga og geta heldur betur verið stolt af þessum flotta styrk.

Ummæli

Ummæli