Helgi Nikk gefinn Byggðasafni Hafnarfjarðar

Helgi Nikk framan við Byggðasafnið

Ætla mætti að eftir svo langa útgerðarsögu í Hafnarfirði þá væru varðveittir hér margir bátar. En svo er alls ekki og í raun er aðeins einn bátur geymdur í Byggðasafni Hafnarfjarðar, Melshúsabáturinn, sem sjá má á fastasýningunni í Pakkhúsinu. Reyndar á safnið einnig afrískan eintrjáning sem ekki hefur tengst útgerðarsögu bæjarins og Fleyg ÞH 301 sem var smíðaður í Hafnarfirði í Bátasmiðju Breiðafjarðar, sem síðar hét Bátalón. Hann er fyrirmynd svokallaðra DAS báta. Hann er reyndar í mjög lélegu ástandi þar sem hann stendur utan við geymslur Byggðasafnsins.

Eyjólfur á Helga Nikk

En einn bátur bættist í eigu safnsins um helgina er afkomendur Eyjólfs Einarssonar skipasmiðs gáfu safninu Helga Nikk, síðasta bátinn sem hann smíðaði, litla trillu sem hann smíðaði í bílskúrnum hjá sér á Þrastahrauninu.

Eyjólfur Einarsson

Eyjólfur Einarsson fæddist 3. ágúst 1927 á Langeyrarvegi 8 í Hafnarfirði og ólst þar upp. Hann er af Brúsastaðaætt sem er kennd við bæ vestast í Hafnarfirði. Hraunið í vesturbæ Hafnarfjarðar var helsta leiksvæðið og gekk Eyjólfur í Barnaskóla Hafnarfjarðar.

Það var mikil tónlist á heimilinu og spilaði Eyjólfur á saxófón í Lúðrasveit Hafnarfjarðar til fjölda ára. Hann var einnig í hljómsveitum á unglingsárum og spilaði á skólaböllum. Á seinni árum átti harmonikkan hug hans allan og spilaði hann með DAS-bandinu á böllum á Hrafnistu í Hafnarfirði á hverjum föstudegi í mörg ár.

Eyjólfur spilar með DAS bandinu á Hrafnistu.

Eyjólfur lærði skipasmíði hjá Júlíusi Nýborg í Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar, fór á samning þar árið 1945 og lauk meistararéttindum árið 1952. Hann starfaði síðar í Bátalóni og sem verkstjóri í Skipasmíðastöð Jóhanns Gíslasonar þar til hann stofnaði Bátasmiðju Eyjólfs. Hún var fyrst staðsett í Reykdalsfrystihúsinu en flutti síðar að Óseyrarbraut. Bátarnir hans voru mjög eftirsóttir enda höfðu þeir reynst einstaklega vel og þóttu bera af bæði hvað varðar útlit og gæði. Hann teiknaði og smíðaði mikinn fjölda báta og má finna þá enn þann dag í dag víða um land.

Eyjólfur við smíði bátsins í bílskúr á Þrastahrauninu

Eyjólfur var kosinn formaður í prófnefnd skipasmíða og sá um að prófa og útskrifa um 30 nýlærða skipasmiði. Hann var einnig formaður Skipasmíðafélags Hafnarfjarðar.

Bátasmiðja Eyjólfs var við Óseyrarbrautina

Eftir að Eyjólfur lét af störfum sem skipasmiður hóf hann smíði á litlum trébáti í bílskúrnum á Þrastahrauninu. Það var síðasti báturinn sem hann smíðaði og fékk nafnið Helgi Nikk eftir föður hans, Einari Helga Nikulássyni. Bátinn notaði hann til að sigla út á fjörðinn og ná sér í fisk í soðið. Það er báturinn sem afkomendur hans gáfu safninu en Eyjólfur lést á síðasta ári.

Afkomendur Eyjólfs færðu safninu einnig fjölda mynda og bátateikningar Eyjólfs, allt frá því hann lærði bátasmíði auka verkfæra sem sjá má á þemasýningu safnsins sem nú stendur yfir.

Glæsilegur báturinn

Báturinn stendur nú glæsilegur framan við Byggðasafnið á Vesturgötu.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here