fbpx
Miðvikudagur, apríl 24, 2024
HeimFréttirGeir Hallsteinsson heiðraður

Geir Hallsteinsson heiðraður

Var talinn einn besti handknattleiksmaður heims

Geir Hallsteinsson, sem af mörgum er talinn einn fremsti handknattleiksmaður sem Ísland hefur átt, var heiðraður í Kaplakrika fyrir leik FH og Aftureldingar í gær.

Geir lætur af störfum í Kaplakrika um áramótin en hann hefur starfað þar frá opnun, árið 1990. Á þeim tímamótum vildu FH-ingar heiðra hann og stóðu lærisveinars hans, Íslandsmeistarar FH 1984, heiðursvörð er Geir gekk í salinn. En það sýndi hæversku hins mikla handknattleiksmanns, að hann stöðvaði við hlið strákanna og það þurfti að benda honum á að forsetinn, bæjarstjórinn og fleiri biðu hans á miðju gólfinu.

Lærisveinar Geirs, Íslandsmeistarar 1984, stóðu heiðursvörð er Geir gekk í salinn.

Voru honum færð blóm og gjafir frá bæjarstjóra og FH og stjórnaði forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson ferföldu húrrahrópi fyrir Geir. Til gamans má geta að Hallsteinn faðir geirs og Sigurveig, amma Guðna forseta, kenndu bæði við Lækjarskóla.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri færði Geir blóm.

Geir fæddist í Hafnarfirði 1946 og var valinn Íþróttamaður ársins árið 1968. Það ár sýndi hann mögnuð tilþrif með íslenska landsliðinu sem lagði Danmörku að velli í fyrsta skipti auk þess sem hann var í lykilhlutverki í liði FH sem vann frækna sigra á sterkustu liðum Norðurlanda. Árið 1973 gekk hann til liðs við Göppingen í Vestur-Þýskalandi þar sem hann vakti strax mikla athygli og skipaði sér á bekk með fremstu skyttum vesturþýsku deildarinnar.

Geir Hallsteinsson með myndina fínu.

Margir hafa lýst honum sem einum mesta handboltasnillingi veraldar, svo flinkur var hann með boltann og var hann þekktur sem slíkur víða um heim.

Hann lék 118 landsleiki fyrir íslenska landsliðið og skoraði í þeim ríflega 500 mörk.

Geir Hallsteinsson var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ á Íþróttamanni ársins þann 29. desember árið 2016.

Viðar Halldórsson, formaður FH færir Geir gjöf. Guðmundur Magnússon og Sverrir Kristinsson t.h.

Geir kemur úr mikilli íþróttafjölskyldu, sonur Ingibjargar Arnardóttur og Hallsteins Hinrikssonar, föður handboltans í Hafnarfirði, og mikils frjálsíþróttamanns en systkini Geirs, Örn og Sylvía vorur landsliðsfólk í handbolta og Ingvar landsliðsmaður í frjálsíþróttum.

Hann tók ungur við af föður sínum við kennslu í leikfimi og var mjög vinsæll leikfimikennari og bauð hann upp á mjög fjölbreytta leikfimi. Hann kenndi síðar við Flensborgarskólann og leiddi m.a. fimleikahóp sem tók þátt í sýningu í Laugardalshöll. Geir þjálfaði við góðan árangur og leiddi FH til Íslandsmeistara árið 1984 eins og áður segir.

Myndband sem birt var þegar Geir Hallsteinsson var tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ árið 2016.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2