Fyrsta skóflustungan tekin að stórframkvæmd í miðbæ Hafnarfjarðar

Tengir Fjörð við Strandgötu - Íbúðir og bókasafn

Haraldur R. Jónsson og Benedikt Steingrímsson frá 220 Firði ehf. og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri taka fyrstu skóflustunguna.

Merkur áfangi var í gær er fyrsta skóflustungan var tekin að nýbyggingum í miðbæ Hafnarfjarðar, þar sem Hafnarfjarðarbíó og Kaupfélagshúsið stóðu saman. Um 20 ár eru liðin síðan þessi hús voru rifin og hefur verið sár í götumyndinni síðan, gat sem nú verður lokað með byggingu sem tengir verslunarmiðstöðina Fjörð við Strandgötu.

 

Nýbyggingin er um 9.000 m² með bílakjallara

 

Í væntanlegri stækkun Fjarðar, sem verður 8.700 m² að stærð með bílakjallara, verða 18 hótelíbúðir sem snúa að Strandgötunni og 31 íbúð með glæsilegt útsýni út á fjörðinn eða yfir gamla bæinn. Á jarðhæðinni verða verslanir og þjónusta sem tengjast núverandi verslunarmiðstöð og á annarra hæðinni verður veitingastaður og nýtt húsnæði Bókasafns Hafnarfjarðar auk íbúða.

Nýbyggingin, séð úr norðaustri. Glitti í Gunnarssund til vinstri.

Það er félagið 220 Fjörður ehf. sem stendur að byggingu hússins en félagið á meirihluta húsnæðis í Firði.

Götumyndin við Strandgötu.

Byggt á deiliskipulagi frá 2001

Gildandi deiliskipulag miðbæjarins er síðan 2001 og hefur verið breytt ótal mörgum sinnum síðan en heildarendurskoðun miðbæjarskipulagsins, sem fór af stað í tíð Haraldar L. Haraldssonar, hefur ekki verið fram haldið en þess í stað hefur verið tekinn lítill hluti miðbæjarins og hann endurskipulagður. Þar hefur t.d. verið markað Ráðhústorg en engin ákvörðun hefur verið tekinn um framtíðarstað Ráðhúss Hafnarfjarðar. Núverandi ráðhús, sem var á sínum tíma fyrsta sérhannaða ráðhús landsins, er löngu sprungið og ekki hannað fyrir aðkomu bæjarbúa. Rýmum fyrir skrifstofur í miðbænum hefur fækkað á kostnað íbúðarhúsnæðis og fyrirsjáanlegt að atvinnuhúsnæði í miðbænum muni áfram verða breytt í íbúðir.

Hópurinn sem kom saman við fyrstu skóflustunguna.

Það var fremur hryssingslegt veður og myrkur er fulltrúar eigenda 220 Fjarðar ehf. ásamt bæjarstjóra tóku fyrstu skóflustunguna í gær en vonandi merki þess að birta muni í uppbyggingu miðbæjar Hafnarfjarðar. Reyndar þurfti að endurtaka athöfnina tvisvar til að fullnægja þörfum sjónvarpsstöðvar sem reyndi að fanga gjörninginn.