Badmintonfélag Hafnarfjarðar fagnaði 60 ára afmæli sínu sl. laugardag en innan félagsins er stundað badminton, borðtennis og tennis.
Félagið var stofnað 7. október 1959 og var Árni Þorvaldsson kjörinn fyrsti formaður félagsins. Badmintonfélag var fyrst stofnað í Hafnarfirði 1934 en varð það ekki langlíft. Félagið átti erfitt uppdráttar fyrstu árin enda aðstaða af skornum skammti, m.a. íþróttasalurinn í Kató. Lá starf félagsins niður um árabil en var endurvakið aftur árið 1972 og sótt um inngöngu í ÍBH. Síðan þá hafa æfingar félagsins verið að mestu í íþróttahúsinu v/Strandgötu.
Opið hús var í íþróttahúsinu v/Strandgötu þar sem gestum var boðið að prufa badminton og borðtennis en einnig var boðið upp á skemmtilega leik fyrir þá yngstu þar sem þeir fóru á margar mismunandi stöðvar og leystu þrautir.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, og formaður Badmintonfélags Hafnarfjarðar, Hörður Þorsteinsson, skrifuðu undir samning um að BH taki við rekstri Íþróttahússins við Strandgötu um áramótin.
Segir Hörður þetta tímamótasamning fyrir félagið sem tryggi því betri rekstrargrundvöll og þar með betri þjónustu við iðkendur og aðstandendur þeirra. Félagið hefur nokkuð lengi barist fyrir þessu og velvilji var í bæjarstjórn en einhverra hluta vegna varð ekki af þessu fyrr en núna. Þetta þýðir að félagið hefur húsbóndavaldið og getur skipulagt sitt starf betur og aukið nýtinguna.