Ekki vilji fyrir „samstöðustjórn“ hjá núverandi meirihluta í Hafnarfirði

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Ljósmynd: Lárus Karl Ingason.

Eftir að fréttir bárust af samstöðustjórn á Akureyri þar sem ákveðið var að afnema hið hefðbundna fyrirkomulag með formlegan minni- og meirihluta í bæjarstjórn sendi Jón Ingi Hákonarson, bæjarfulltrúi Viðreisnar, bréf þann 30. september sl. til allra bæjarfulltrúa í Hafnarfirði þar sem hann lagði til að allir flokkar sem sæti eiga í bæjarstjórn Hafnarfjarðar ræði þann möguleika að kasta fyrir róða formlegri meiri- og minnihlutaskipan og taki upp „Akureyrarmódelið“ við stjórnun bæjarins út þetta tímabil.

Í bréfinu segir hann jafnframt: „Við höfum sýnt að í fjölmörgum málaflokkum eigum við mikla samleið en í þeim þar sem áherslumunur ríkir er mikilvægt að sjónarmið allra fái að koma fram því þegar öllu er á botninn hvolf er ásetningur allra sá sami; að vinna að hagsmunum bæjarbúa til allrar framtíðar.“

Segir Jón Ingi að bæjarstjóri hafi ítrekað nefnt það, bæði á opinberum vettvangi sem og meðal bæjarfulltrúa að mögulegt tekjufall geti orðið gríðarlega mikið og að útgjöld vegna félagsmála muni að öllum líkindum snaraukast.

Ekkert í sveitarstjórnarlögum kveður á um myndun meirihluta í bæjarstjórn enda kjósa bæjarbúar fólk til að sitja í bæjarstjórn án allra skilyrða. Slík formleg meirihlutamyndun þekkist vart nokkurs staðar hjá félögum eða fyrirtækjum og undirstrikar í raun formlegan skoðanaágreining sem oft á tímum er ekki raunverulegur þegar á hólminn er kominn. Skoðanir fóls fara ekki eftir flokkslínum í bæjarstjórnum frekar en annars staðar.

Jákvæð viðbrögð komu frá fulltrúum Samfylkingar, Bæjarlista og Miðflokks sem allir voru tilbúnir að ræða þennan möguleika.

Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins sá hins vegar ekki ástæðu til að breyta því fyrirkomulagi sem verið hafi í bæjarstjórn en ítrekaði óskir um gott samráð og samstarf. Sagðist hún sannarlega myndi fagna því ef minnihlutinn kæmi að því borði með öflugum hætti og allir fulltrúar tækju þá saman þátt í þessari fjárhagsáætlunargerð og gjarnan leggi hana saman fram. „Það væri mjög stórt skref í bæjarmálunum í Hafnarfirði og til fyrirmyndar,“ segir Rósa í svarbréfi.

Ekki hafa borist svör frá Framsókn og óháðum sem mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokki að sögn Jóns Inga.

Bæjarstjórn Akureyrar, þar sem enginn finnst minni- eða meirihluti. Ljósm.: Akureyrarbær

Ummæli

Ummæli