fbpx
Laugardagur, október 5, 2024
HeimFréttirEintóm gleði og upplifun á alþjóðlegu skátamóti í Hafnarfirði

Eintóm gleði og upplifun á alþjóðlegu skátamóti í Hafnarfirði

Leggja til hátt í 40 vinnuvikur í samfélagsþjónustu

Alþjóða skátamótið World Scout Moot stendur nú yfir á Íslandi og hafa um 400 skátar, víðsvegar að úr heiminum, gist í tjaldbúðum á Víðistaðatúni frá því á þriðjudag.

Almennir þátttakendur eru á aldrinum 18-25 ára og eru 40 skátar í sveit sem skipt er upp í 10 manna flokka með skátum af ýmsum þjóðernum. Um leið og þau hafa tekið þátt í spennandi verkefnum eru þau að kynnast nýjum félögum með mismunandi bakgrunn og hefur ekki hlaupið snuðra á samstarfið í sveitunum níu í Hafnarfirði. Skátarnir elda sinn mat sjálfir en þeir fengu allan matinn í upphafi dvalarinnar og þurfa að tryggja að hann haldist ferskur allan tímann í Hafnarfirði.

Skátar hreinsuðu steinbeð á Herjólfsgötu

Veðrið hefur leikið við skátana í Hafnarfirði en það sama hefur ekki verið uppi á teningunum hjá ýmsum öðrum stöðum á landinu en alls er skátamótið á 11 stöðum á landinu en á morgun sameinast hóparnir á Úlfljótsvatni þar sem um 5.000 skátar verða fram í næstu viku, í stærsta skátamóti sem haldið hefur verið á landinu.

Allir skátarnir leggja til um fjögurra tíma samfélagsþjónustu og hafa þeir lagt göngustíga, plantað trjám, hreinsað beð og fjölmargir hafa tekið eftir ótrúlegum afköstum þeirra við að hreinsa grjótbeð meðfram göngustígnum á Herjólfsgötu. Jafngildir vinna þeirra allt að 40 vinnuvikum en Hafnarfjarðarbær bauð öllum þeim sem tóku þátt í þessari vinnu í hádegismat.

Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri leit við í dag og fékk að smakka á nýgerðri kjötsúpu og heilsaði upp á erlenda skáta.

Flokkarnir hafa tekið þátt í ýmsum verkefnum, gengið á fjöll, skoðað hella, eldað kjötsúpu og bakað pönnukökur, fræðst um gamla bæinn í Hafnarfirði, róið á Hvaleyrarvatni, siglt í höfninni, æft skotfimi og magt annað.

Silgt var og róið í Hafnarfjarðarhöfn

Virðast skátarnir allir vera mjög ánægðir með dvölina í Hafnarfirði og fjölmargir bæjarbúar hafa lýst ánægju með dvöl þeirra hér og þá vinnu sem þeir hafa lagt fram.

Hafnfirsku þátttakendurnir hverfa á brott á morgun og fara síðustu rúturnar héðan fljótlega eftir hádegi.

Unnið var við stígagerð við Hvaleyrarvatn

Hafnfirskir skátar hafa séð um undirbúning og framkvæmd á mótinu hér í Hafnarfirði og hefur það gengið snurðulaust fyrir sig. Lokahátíðin er varðeldur á Víðistaðatúni kl. 21 í kvöld.

Sungið og leikið á Víðistaðatúni

Fleiri myndir frá mótinu má sjá á Facebook síðu Fjaðrarfrétta hér.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2