fbpx
Laugardagur, maí 18, 2024
HeimFréttirEbba Katrín er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2024

Ebba Katrín er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar 2024

Ebba Katrín Finnsdóttir leikkona er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2024. Þetta var tilkynnt í dag, síðasta vetrardag í Hafnarborg.

Ebba Katrín starfar við Þjóðleikhúsið og leikur þetta leikárið í Orði gegn orði, Frosti og Ellen B. Hún lék meðal annars í Rómeó og Júlíu þar sem hún var einnig einn tónlistarhöfunda. Einnig Uglu í Atómstöðinni-endurliti og fékk hún Grímuverðlaun fyrir. Ebba Katrín lék í Nokkrum augnablikum um nótt, Ást og upplýsingum og Meistaranum og Margarítu.

Ebba Katrín útskrifaðist af leikarabraut Listaháskóla Íslands 2018. Hún starfaði fyrst við Borgarleikhúsið eftir útskrift þar sem hún lék Emmu í Dúkkuheimili 2. hluta, Marínu í NÚNA 2019, Ófelíu og Laertes í Hamlet litla og Filippíu í söngleiknum Matthildi. Hún byrjaði ung að leika og steig fyrst á stokk í Setbergsskóla í Hafnarfirði. Hún gekk í Versló og samdi og setti í kjölfarið upp leikritið Konubörn í Gaflaraleikhúsinu árið 2015. Verk sem hún samdi með hópi kvenna um um vandkvæðin sem fylgja því að vera hvorki barn né fullorðinn, hvorki stelpa né kona.

Hún lék í Mannasiðum á RÚV, í kvikmyndinni Agnesi Joy, þáttaseríunum Venjulegu fólki 2 og 3. Þá hefur hún leikið í stuttmyndunum og Áramótaskaupinu. Síðustu misseri hafa verið gjöful á ferli Ebbu Katrínar. Ekki aðeins hefur hún fengið lofsamlegra dóma fyrir einleikinn Orð gegn orði, sem hún lýsir sjálf sem eldskírn á sviði, heldur kynntist þjóðin henni enn betur á skjánum í þáttaröðinni Húsó.

Ótrúlega stolt og þakklát

Hvað þýðir þig að vera kjörin bæjarlistamaður Hafnarfjarðar?

„Mér finnst ég allt í einu finna fyrir ábyrgðarhlutverki. Ég er ótrúlega stolt og þakklát. Ég var ekki að búast við þessu og það er erfitt að kalla sig listamann, alla vega ekki strax,“ segir Ebba Katrín auðmjúk strax eftir afhendinguna. „En ég held ég verði núna að fara að nota þá nafnbót. En mér finnst þetta bara algjör heiður,“ segir Ebba Katrín og aðspurð hvort hún verði meiri Hafnfirðingur við þessa nafnbót, þá segist ekki hafa haldið að maður gæti verið meiri Hafnfirðingur en hún. „En það má segja að búið sé að rótfesta mig þó ræturnar séu í Hafnarfirði, ég er algjör Hafnfirðingur,“ segir Ebba Katrín en segir þó að nafnbótin ýti jafnvel undir það að gera hana að enn meiri Hafnfirðingi.

Ebba Katrín Finnsdóttir og stolt fjölskylda

Til fróðleiks má geta að föðurættin hennar er úr Hafnarfirði, pabbi hennar er Finnur Árnason, sonur Árna Grétars Finnssonar sem var þekktur lögmaður í bænum og stjórnmálamaður og Sigriðar Oliversdóttur.

Móðir Ebbu Katrínar er Anna María Urbancic og systkini Ebbu eru Árni Grétar, Oliver Páll og Viktor Pétur.

 

Ebba Katrín og stolt fjölskylda

Bæjarlistamenn Hafnarfjarðar

 • 2023 – Pétur Gautur, myndlistarmaður
 • 2022 – Björn Thoroddsen, gítarleikari
 • 2021 – Friðrik Dór Jónsson, tónlistarmaður
 • 2020 – Bergrún Íris Sævarsdóttir, barnabókahöfundur og teiknari
 • 2019 – Björk Jakobsdóttir, leikkona og leikstjóri
 • 2018 – Björgvin Halldórsson, tónlistarmaður
 • 2017 – Steingrímur Eyfjörð, myndlistarmaður
 • 2014 – Andrés Þór Gunnlaugsson, tónlistarmaður
 • 2009 – Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, söngkona
 • 2008 – Sigurður Sigurjónsson, leikari
 • 2007 – Jónína Guðnadóttir, myndlistarmaður
 • 2006 – Elín Ósk Óskarsdóttir, söngkona
 • 2005 – Sigrún Guðjónsdóttir (Rúna), myndlistarmaður

Ekki voru útnefndir bæjarlistamenn á árunum 2010 til 2013 og 2015 til 2016

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2