fbpx
Þriðjudagur, desember 3, 2024
target="_blank"
HeimFréttirDraugaslóðir á Íslandi er ný bók eftir Símon Jón

Draugaslóðir á Íslandi er ný bók eftir Símon Jón

Hafnfirðingurinn Símon Jón Jóhannsson hefur gefið út bókina Draugaslóðir.

Segir Símon Jón bókina í raun vera framhald af bókinni Hulduheimar sem hann gaf út árið 2020. Sú bók hefur að geyma um eitt hundrað huldufólkssögur úr öllum landshornum.
Nýja bókin geymir þó aðeins lítið brot af þeim draug­sögum sem til eru skráðar.

Íslendingar hafa lengi trúað á drauga. Sumar draugasögur eru hroðalegar og enda jafnvel með blóðsúthellingum en aðrar eru saklausari. Þeir sem deyja með voveiflegum hætti eða ósáttir er hættar við að ganga aftur og ást og hatur er því algengur hvati í draugasögum.

Í bókinni Draugaslóðir á Íslandi eru um 100 draugasögur úr öllum landshlutum. Farinn er hringurinn kringum landið og sagðar draugasögur úr flestum sveitum. Hverjum stað fylgja ljósmyndir eða annað myndefni og staðbundin kort. Skemmtileg og fróðleg ferðahandbók. Símon Jón Jóhannsson tók saman og Ívar Gissurarson sá um myndaritstjórn.

Símon Jón Jóhannsson. Ljósmynd: Guðni Gíslason

Stapadraugurinn

Þótt margir kannist við Stapadrauginn, sem kenndur er við Stapann sunnan Voga á Vatnsleysuströnd, fer ekki miklum sögum af honum. Ekki er frá því greint í heimildum hvernig hann hafi komið til eða hver hann hafi verið í lifanda lífi. Á áttunda áratug 19. aldar fannst ónafngreindur maður frá Garði á Reykjanesi hálfdauður og illa útleikinn á Stapanum. Var hann borinn heim í Stapakot og lá þar um hríð meðan hann var að jafna sig. Ekkert fékkst upp úr honum um hvað hefði komið fyrir en menn kenndu þó Stapadraugnum um hrakfarir hans. Í fleiri sögnum er minnst lauslega á reimleika við Stapann.

Í seinni tíð hefur farið nokkrum sögum af Stapadraugnum og þá einna helst þannig að hann taki sér far með bílum sem eiga leið fram hjá Stapanum. Birtist hann þá óvænt í bílnum en hverfur svo skyndilega að nokkurri stund liðinni.

Horft til Keflavíkur af Vogastapa. Ljósm.: Ívar Gissurarson

Runólfur Heydal (1918-1996) bifreiðarstjóri segir svo frá:

„Í marzmánuði 1947 flutti ég eitt kvöld fólk úr Reykjavík suður til Keflavíkur og fór þaðan til baka inn eftir nálægt klukkan fjögur um nóttina. Ég var aleinn í bílnum og stanzaði hvergi.

Þegar ég kom inn á Vogastapa, þar sem hann er hæstur, verður mér litið í spegilinn fyrir framan mig. Þá blasir þar við augum mínum furðuleg sjón. Ég sé í speglinum, hvar tveir menn sitja hlið við hlið í aftursætinu á bílnum. Ég sé, að á þeim er nokkur aldursmunur, og var sá eldri með hatt á höfði, sem slútti niður yfir ennið, og bar hann hærra í sætinu.“ (Sigurður Nordal og Þórbergur Þórðarson, Gráskinna hin meiri II, s 217-218.)

Runólfi brá nokkuð við þessa sjón en stutta síðar ók bíll fyrir aftan hann með sterkum ljósum sem lýstu upp bíl hans þannig að hann sá mennina enn þá greinilegar. Sátu mennirnir tveir grafkyrrir í aftursætinu þangað til Runólfur var kominn nokkuð inn fyrir Voga en þá hurfu þeir jafn skyndilega og þeir höfðu birst.

Nokkru áður sama ár hafði Runólfur átt leið suður í Keflavík að kvöldi til að sækja fólk. Hann var einn í bílnum, dumbungsveður og snjóföl á jörðu. Á veginum milli Voga og Vogastapa sér hann hvar maður stendur á hægri vegbrúninni. Þegar Runólfur kemur nær sér hann að maðurinn er klæddur hermannabúningi. Hann stöðvar bílinn, opnar hurðina farþegamegin og bíður manninum far á ensku. Maðurinn svarar engu en sest þó inn í bílinn. Runólfur reyndi að tala við manninn og spyrja hann meðal annars hvert hann sé að fara en maðurinn er áfram þögull og horfir beint fram fyrir sig. Þegar þeir eru komnir upp í Stapann á móts við braggahverfi sem Bandaríkjamenn höfðu byggt á stríðsárunum hverfur maðurinn hljóðlaust úr bílnum.

Minna virðist þó hafa orðið vart við reimleika við Stapann eftir að nýja Reykjanesbrautin var lögð. (Sbr. Sigurður Nordal og Þórbergur Þórðarson, Gráskinna hin meiri II, s, 217-218.)

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2