fbpx
Laugardagur, maí 18, 2024
HeimFréttirAtvinnulífSigldu með starfsmennina í nýtt húsnæði í Hafnarfirði

Sigldu með starfsmennina í nýtt húsnæði í Hafnarfirði

Nýtt húsnæði Hafrannsóknastofnunar að Fornubúðum 5 var formlega vígt í dag og mikið var í lagt til að gera athöfnina sem eftirminnilegasta. Í raun var þetta táknrænn flutningur einnig en athöfnin hófst kl. 13 í dag við Sjávarútvegshúsið við Skúlagötu þar sem starfsfólk og gestir gengu fylktu liði að rannsóknarskipum stofnunarinnar Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni við Faxagarð. Þaðan var siglt út á Faxaflóann og yfir í hina nýju heimahöfn, Hafnarfjörð.

Gengið var að skipunum frá gamla Sjávarútvegshúsinu

Með í för voru auk starfsmanna, forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra, nemendur úr Sjávarútvegsskólanum og fleiri gestir en veðrið var glæsilegt þó vindur væri nokkur. Var gefinn góður tími til siglingarinnar en skipin komu í höfn um kl. 16 þar sem fjöldi manns beið á Háabakka, nýjum bakka sem gerður var fyrir skipin. Var einkar fallegt að sigla inn til Hafnarfjarðar í sólskininu.

Þar beitti forseti Íslands klippunum, eins og hann orðaði sjálfur, og vísaði þar til togvíraklippa Landhelgisgæslunnar, og klippti á borða sem bundinn hafði verið þvert yfir landganginn sem tákn um að hin nýja aðstaða væri tekin í notkun.

Forseti Íslands mundar skærinBúið var að tjalda stóru tjaldi þar sem veitingar biðu og Lúðrasveit Hafnarfjarðar lék hressa tónlist. Forseti Íslands ávarpaði gesti og minntist m.a. vísindamannanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar sem hafi verið óþreytandi að deila þekkingu sinni með þjóðinni sem varð til þess að mikil og góð þróun varð í fiskveiðum við Íslands.

Karlakórinn Þrestir

Karlakórinn Þrestir söng á milli ávarpa gesta.

Kristján Þór Júlíusson

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra sagði alltaf gott að koma til Hafnarfjarðar, sérstaklega vegna þess að þar kæmi manni ekkert á óvart og vísaði hann þá til þess að ræðupúltið sem hann stóð við var púlt merkt FH, sem Jón Rúnar Halldórsson, forsvarsmaður Fornubúða, eiganda hússins, og FH-ingur hafði komið með. Sagði hann einnig að Hafnarfjörður væri mjög fallegur frá sjó. Sagði hann fara vel á því að Hafrannsóknastofnun kæmi sér fyrir í Hafnarfirði í húsi sem væri öllum til sóma. Þó benti hann á að húsið og umgjörðin væri einskis virði ef ekkert væri vitið innanhúss.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Rósa Guðbjartsdóttir fagnaði komu Hafrannsóknastofnunar til Hafnarfjarðar og sagði hún þetta aðeins vísi að þeirri miklu uppbyggingu sem ætti eftir að koma á svæðið skv. nýsamþykktu rammaskipulagi. Sagðist hún hlakka mikið til samstarfs við stofnunina og færði Sigurði Guðjónssyni forstjóra táknræna gjöf frá bæjaryfirvöldum.

Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafró

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar sagði að þegar væri farið að kenna sér hafnfirsku; að hann færi inneftir þegar hann færi til Reykjavíkur og heim þegar hann færi til Hafnarfjarðar. Sagði hann það stóran áfanga að sameina starfsemi stofnunarinnar á einn stað. Eftir að gamla Hafrannsóknarstofnun og Veiðimálastofnun voru sameinaðar í eina stofnun hafi margt breyst og stofnunin væri mun öflugri. Stofnunin hefði skýra sýn og hafið sókn í erlenda rannsóknarsjóði og orðið vel ágengt. Upplýsti hann að fljótlega yrði boðin út smíði á nýju hafrannsóknarskipi sem leysa eigi Bjarna Sæmundsson af. Þá sagðist hann vænta mikils af nýrri bóknámsbraut á meistarastigi í sjávar- og vatnalíffræði með áherslu fiskifræði, sem sett hafi verið á laggirnar með Háskóla Íslands. Sagði hann þessa nýju námsbraut mikilvæga til að auka áhuga ungs fólk á að starfa með því öfluga starfsfólki sem hjá stofnuninni starfar.

Jón Rúnar Halldórsson afhendir Sigurði lyklana

Jón Rúnar Halldórsson, forsvarsmaður Fornubúða ehf. fagnaði áfanganum og var greinilega mjög ánægður með vel unnið verk. Afhenti hann síðan Sigurði Guðjónssyni forstjóra, lykla að húsnæðinu og fengu gestir síðan að skoða húsið.

130 starfsmenn í húsinu og 40 í áhöfn skipanna

Í húsinu að Fornubúðum starfa um 130 manns og að auki eru um 40 manns í áhöfnum skipanna. Þá sinna margir háskólanemar námsverkefnum sínum í húsinu. Hafrannsóknastofnun rekur einnig Sjávarútvegsskóla Þróunarsamvinnumiðstöðvar UNESCO sem er hluti af GRÓ ‐ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem er einn vettvangur þróunarstarfs utanríkisráðuneytisins.

Húsið er stærsta timburhús landsins reist af Fornubúðum ehf. Timbur var sérstaklega valið sem byggingarefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, bæði á byggingartíma og í rekstri hússins í samræmi við markmið Hafrannsóknastofnunar sem umhverfisvænnar stofnunar.

Opið hús á sjómannadaginn

Á sjómannadaginn 7. júní milli kl. 13 og 17 býður Hafrannsóknastofnun öllum að skoða húsið. Stutt kynning verður á starfseminni og veitingar í boði.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2