3,5 milljarða tilboð komið í hlut bæjarins í HS veitum

Verður hlutur bæjarins í HS veitum seldur árið sem fyrirtækið flytur í nýtt húsnæði í Hafnarfirði?

Bæjarráð Hafnarfjarðar fjallaði um tilboð sem komið var í 15,42% hlut bæjarins í HS veitum en Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs vildi ekki gefa upp hvert tilboðið væri né hver tilboðsupphæðin væri og sagði trúnað ríkja til fundar bæjarráðs á morgun, fimmtudag.

Viðskiptablaðið greinir frá því að bærinn stefni á að selja HSV eignarhaldsfélagi hlutinn á um 3,5 milljarða króna.

Eignarhaldsfélagið HSV yrði næst stærsti eigandi HS veitna

Ef kaupin ganga eftir mun Eignarhaldsfélagið HSV eignast tæplega helmingshlut í HS Veitum á móti 50,1% hlut Reykjanesbæjar og 0,1% hlut Suðurnesjabæjar.

Skv. heimildum Viðskiptablaðsins var tilboð HSV eignarhaldsfélags slhf. talið hagstæðast eftir einkaviðræður við tvo kaupendahópa. Meðal stærstu hluthafa HSV eignarhaldsfélags eru Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Almenni lífeyrissjóðurinn, Gildi lífeyrissjóður og Ursus, fjárfestingafélag Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar.

Miðað við söluverðið nú hefur söluvirði HS veitna hækkað úr 9,1 milljarði árið 2014 í tæplega 23 milljarða. Miðað við það hefur verðmæti hlutar Hafnarfjarðar í HS veitum hækkað um nálega 390 milljónir kr. á aðeins 6 árum.

Fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins að bókfært eigið fé HS Veitna hafi um mitt árið verið 14,3 milljarðar króna, eignir 30,7 milljarða króna og skuldir 16,4 milljarðar króna.

Lesa má frétt Viðskiptablaðsins hér.

 

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here