fbpx
Sunnudagur, september 8, 2024
HeimFréttirHektari lands brann í nágrenni Hvaleyrarvatns

Hektari lands brann í nágrenni Hvaleyrarvatns

 

 

Á þriðja tímanum í dag var Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins enn á ný kallað út til að slökkva gróðurelda og nú í upplandi Hafnarfjarðar nálægt Hvaleyrarvatni, eða á Langholti við Selhöfða sem margir kannast við sem hluta af Haukaleiðinni. Um það bil hektari lands brann, gróinn fjölbreyttu skóglendi. Að sögn Steinar Björgvinssonar framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er mjög sárt að horfa upp á þessa eyðileggingu.

Slökkviliðið að störfum.

Heppni að starfsmenn skógræktarinnar voru við vinnu í nágrenninu

Steinar sagði að hann og tveir aðrir starfsmenn hefðu fyrir tilviljun verið að störfum sunnan við Kjóadal við að taka upp tré með rót og ætluðu að fara í kaffi þegar þeim varð litið við og sáu eldtungur teygja sig til himins. Steinar sagði að eldsupptök væru líklega við göngustíg sem liggur eftir Landholtinu. Ekkert brann á sjálfum stígnum en sitt hvoru megin við hann og út að veginum sem liggur upp úr Seldalnum og í átt að veginum um Kjóadal.

Steinar Björgvinsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Jökull starfsmaður slökkva elda.

Hann sagðist ekki vita hvernig öspunum mundi reiða af en mjög líklega myndu þær deyja eftir þrjú ár. Austan við stíginn hafði verið plantað úrvalsklón af öspum í fyrra og voru þær allar farnar í eldinn. Mörg grenitré urðu einnig eldinum að bráð. Þetta svæði er að mestu vaxið skógi sem félagar í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar hafa gróðursett síðustu 20-25 árin. Þarna eru fjölmargar tegundir trjáa, aspir, birki, greni, fura og víðir. „Það er mjög sárt að sjá þetta gerast enn og aftur því við í Hafnarfirði eigum langa sögu af gróðureldum.“ Hann segist mun eftir fyrsta eldinum þegar hann var strákur í upplandi Hafnarfjarðar 1979, sem var mjög þurrt vor, ekkert ósvipað vorinu núna.

Horft yfir Langholtið, Helgafell til vinstri.

Gangið vel um og kveikið alls ekki eld.

Vel gekk að slökka eldinn og verður skógræktin með vakt á svæðinu. Beinir Steinar þeim tilmælum til vegfarenda um svæðið að kveika alls ekki eld nú þegar svo þurrt er og þar sem ekki er útlit fyrir að rigni að ráði næstu daga.

Fleiri myndir sem Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir tók á svæðinu.

Horft í átt að Seldalnum.
Horft í átt að Kjóadal, göngustígurinn eftir Langholtinu fyrir miðri mynd.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2