fbpx
Sunnudagur, september 8, 2024
HeimFréttir13,6 milljóna kr. styrkur til áframhaldandi uppbyggingar í Seltúni

13,6 milljóna kr. styrkur til áframhaldandi uppbyggingar í Seltúni

538,7 milljónir króna til uppbyggingar ferðamannastaða

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, úthlutaði í gær úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2024. Að þessu sinni hljóta 29 verkefni styrk úr sjóðnum, samtals að fjárhæð 538,7 milljónir króna, og dreifast þau um land allt.

Markmið sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða, að jafnari dreifingu ferðamanna um landið og styðja við svæðisbundna þróun. Líkt og undanfarin ár þá snúa verkefnin sem hljóta styrk í ár að fjölbreyttri uppbyggingu um land allt, m.a. á sviði öryggismála, náttúruverndar, innviðauppbyggingar o.fl. Mörg verkefnanna eru skilgreind á áfangastaðaáætlun innan síns svæðis og eru unnar á forsendum heimafólks.

13,6 milljónir kr. í Seltún

Einn styrkur kemur í hlut Hafnarfjarðar en 13,6 milljónir kr. fást til áframhaldandi uppbyggingar í Seltúni, þar sem fjöldi ferðamanna eykst stöðugt.

Stuðlagil og Múlagljúfur hljóta hæstu styrkina í ár

Tveir hæstu styrkirnir í ár eru að upphæð 90 milljónir króna hvor, og fara þeir annars vegar til áframhaldandi uppbyggingar við Stuðlagil á Austurlandi og hins vegar til uppbyggingar gönguleiðar og áningarstaðar á vegum Sveitarfélagsins Hornafjarðar við Múlagljúfur á Suðurlandi. Þriðji hæsti styrkurinn, rúmar 52 milljónir króna, fer til Vesturlands, þar sem um er að ræða uppbyggingu áningarstaðar með aðgengi fyrir alla við Kúalaug í Reykhólahreppi.

Sýnilegur árangur af starfi sjóðsins

Þótt hér hafi að framan verið tilgreind þau verkefni sem hljóta hæstu styrkina þá eru minni styrkir oft á tíðum ekki síður mikilvægir þeim sem þá hljóta og geta skipt sköpum við uppbygginu svæða og nýrra segla á sviði ferðaþjónustu, segir í tilkynningu á vef Menningar- og viðskiptaráðuneytisins.

„Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur valdið straumhvörfum í uppbyggingu ferðamannastaða undanfarin ár. Frá árinu 2012 hafa yfir 900 verkefni hlotið styrk úr sjóðnum fyrir samtals 7,7 milljarða króna. Er hér um skynsamlegar fjárfestingar til lengri tíma að ræða, sem treysta undirstöður ferðaþjónustunnar sem lykilatvinnugrein þegar kemur að verðmæta- og gjaldeyrissköpun fyrir þjóðarbúið,“ segir ráðherra.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2