Mánudagur, október 13, 2025
HeimFréttir107 útkrifuðust með stúdentspróf frá Flensborgarskólanum

107 útkrifuðust með stúdentspróf frá Flensborgarskólanum

Bergur Fáfnir Bjarnason fékk 9,74 á stúdentsprófi

Flensborgarskólinn í Hafnarfirði brautskráði sl. laugardag 107 nemendur.

Þeir útskrifuðust af fimm brautum skólans; 16 af félagsvísindabraut, 10 af raunvísindabraut, 4 af starfsbraut, 11 af viðskipta- og hagfræðibraut og 66 af opinni braut.

Ríflega helmingur þeirra lauk einnig námi af einu af sviðum skólans, þ.e. af félagslífssviði, listasviði, tæknisviði eða íþróttaafrekssviði skólans.

Bergur Fáfnir Bjarnason Hann æfir sund með Sundfélagi Hafnarfjarðar og keppir nú með landsliðinu í Andorra á Smáþjóðaleikunum og var því fjarverandi á útskrift sinni.

Hæstu einkunn hlaut Bergur Fáfnir Bjarnason með 9,74 en hann hlaut Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi. Bergur Fáfnir hlaut einnig styrk frá Rio Tinto fyrir góðan árangur í raungreinum, verðlaun frá skólanum fyrir framúrskarandi árangur í ensku, íslensku, íþróttaafreksgreinum og stærðfræði en Bergur Fáfnir hefur haldið úti jafningjakennslu í stærðfræði og raungreinum innan skólans sem hefur reynst afar gott úrræði í námi.

Bergur Fáfnir hlaut Hvatningarverðlaun Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar og þá hlaut hann einnig viðurkenningu frá Efnafræðifélagi Íslands sem veitt eru nemendum sem sýna afburða árangur í efnafræði en Bergur Fáfnir sigraði árlega landskeppni í efnafræði meðal framhaldsskólanema fyrr á árinu.

Hekla Sif Óðinsdóttir með skólastjóra og aðstoðarskólastjóra

Hekla Sif Óðinsdóttir fékk næst hæstu einkunn, 9,62. Hekla Sif hlaut Raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófi. Hún fékk einnig verðlaun frá skólanum fyrir framúrskarandi árangur í ensku og spænsku. Þá hlaut hún viðurkenningu frá Stærðfræðafélagi Íslands fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði.

Við erum óstöðvandi

Aðalbjörg Emma Hafsteinsdóttir fráfarandi oddviti Nemendafélags Flensborgarskólans.

Aðalbjörg Emma Hafsteinsdóttir flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta og minntist áranna í Flensborg með hlýju. Hún þakkaði samnemendum og starfsfólki skólans fyrir að gera skólann að lifandi og skemmtilegu umhverfi sem hún segir að geri Flensborg að svo einstökum skóla. Þá afhenti hún skólanum gjöf en hópurinn gaf fjárupphæð til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna í nafni skólans. Lauk hún ávarpi með því að segja: „Við erum öll óstöðvandi – Við getum það sem við viljum.“

Erla Sigríður Ragnarsdóttir, skólameistari

Erla Sigríður Ragnarsdóttir, skólameistari, og Júlía Jörgensen, aðstoðarskólameistari, fluttu ávörp og fóru yfir liðið skólaár, þ.m.t. skólastarfið sem einkenndist af gjöfulum verkefnum og frumkvæði nemenda. Erla upplýsti að aukin ásókn væri í skólann og að kannanir sýndu mikla ánægju nemenda. Þá upplýsti hún að 640 nemendur hefðu verið við skólann í vetur og að nýr áfangi í flugfræðum hæfist í haust og að innritað yrði í nýtt alþjóðasvið. Þá sagði hún m.a. frá nýjum Flensborgarlundi, skógræktarreit í upplandinu þar sem tíu fyrstu birkiplöntunum var plantað í vor. Þá var sagt frá jafningjaveri sem starfrækt er af nemendum til stuðnings við samnemendur sína í stærðfræði og raungreinum.

50 ár frá fyrstu stúdentsútskriftinni

Tryggvi Harðarson

Tryggvi Harðarson flutti ávarp fyrir hönd 50 ára stúdenta en hann fór fyrir hópi þeirra sem luku fyrstir stúdentsprófi frá Flensborgarskólanum árið 1975, en alls útskrifuðust þá 30 nemendur við Menntadeild Flensborgarskólans.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2