Tvær nýjar sýningar opnaðar í Hafnarborg á sunnudaginn

Fuglar Havana eftir Katrínu Elvarsdóttur.

Á sunnudaginn kl. 14 verða tvær nýjar sýningar opnaðar í Hafnarborg.

Í aðalsal safnsins er það sýningin Lengi skal manninn reyna, yfirlitssýning á verkum eftir Þorvald Þorsteinsson. Sýningin er unnin í samstarfi við Listasafnið á Akureyri og eignasafn Þorvaldar Þorsteinssonar. Á sýningunni getur að líta fjölbreytt úrval verka; skúlptúra, innsetningar, málverk og myndbandsverk og fleira sem varpa ljósi á þennan fjölhæfa listamann og það hvernig hann vann verk sín í tengslum við samfélagið. Þorvaldur hefði orðið sextugur þann 7. nóvember 2020.

Helena Jónsdóttir verður með forleiðsögn um sýninguna klukkan 13.
Ávörp forstöðumanns Hafnarborgar og sýningarstjóra verður klukkan 14.

Í Sverrissal verður opnuð sýningin Söngfuglar með nýjum verkum eftir Katrínu Elvarsdóttur. Á ferðalagi Katrínar um Kúpu skrásetti hún umhverfi eyjarinnar,  byggingar í niðurníðslu en einnig söngfugla í búrum sem urðu á vegi hennar nánast við hvert fótmál. Það er rík hefð fyrir því að halda söngfugla á eynni sem hluti af menningararfleið eyjarbúa, litir gleðigjafar í skrautlegum búrum á fáskrúðugum, tómlegum heimilum. Ef til vill er ætlunin að gefa í skyn ákveðin lúxus með fuglahaldinu og breiða með því yfir bágindi og skort.

Þorvaldur Þorsteinsson var afkastamikill listamaður og kennari sem nýtti sér flesta miðla í listsköpun. Auk þess að fást við myndlist samdi hann skáldsögur, leikrit, ljóð og tónlist og varð landsþekktur fyrir Vasaleikhúsið sem flutt var í Ríkisútvarpinu 1991 og síðar sýnt í sjónvarpi. Skáldsaga hans, Skilaboðaskjóðan, sló einnig rækilega í gegn þegar hún kom út árið 1986 og var síðar færð í leikbúning og sýnd í Þjóðleikhúsinu sem söngleikur árið 1993. Fjórar bækur Þorvaldar um Blíðfinn hafa verið þýddar á fjölda tungumála og Borgarleikhúsið setti upp leikrit hans And Björk, Of Course… árið 2002. Hann hélt fjölmargar einkasýningar, jafnt á Íslandi sem erlendis, og tók þátt í alþjóðlegum samsýningum víða um heim.

Katrín Elvarsdóttir lauk BFA námi frá Art Institute í Boston árið 1993. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga hérlendis og erlendis, svo sem Leitina að sannleikanum í BERG Contemporary árið 2018, Double Happiness í Gerðarsafni árið 2016, Vanished Summer í Deborah Berke, New York, árið 2014 og Hvergiland í Listasafni Reykjavíkur árið 2010. Þá hafa verk Katrínar verið sýnd á samsýningum víða, þar á meðal á Þöglu vori í Hafnarborg árið 2020. Fjórar bækur hafa áður verið gefnar út með ljósmyndum Katrínar og verður bókin Songbirds, sem kemur út samhliða sýningu hennar í Hafnarborg, sú fimmta. Katrín hefur verið tilnefnd til ýmissa verðlauna eins og EIKON Award árið 2017, Deutsche Börse Photographic Prize árið 2009 og heiðursverðlauna Myndstefs árið 2007.

Ummæli

Ummæli