fbpx
Laugardagur, desember 2, 2023
HeimÁ döfinniSýning í tilefni 40 ára frá stofnun Hafnarborgar

Sýning í tilefni 40 ára frá stofnun Hafnarborgar

Í tilefni þass að 40 ár eru liðin frá stofnun Hafnarborgar verður á fimmtudaginn, 19. október kl. 18 opnuð sýning á völdum verkum úr safneign Hafnarborgar.

„Hvert safn endurspeglar gildi þess sem safnar. Á þetta jafnt við um einkasafn eða opinbera stofnun með langa sögu. Safnið endurspeglar það sem skiptir hvern þann máli sem lagði grunn að því – af eigin áhuga og áræðni, af innri þörf eða tilviljun. Þegar safn kemur í hlut samfélagsins má svo segja að það eignist eigið líf en það segir að sama skapi fjöldamargt um það samfélag sem það tilheyrir og vex í takt við. Um tíðaranda og breytilegan smekk fólks, um efnisnotkun og áherslur, um hugmyndir og hugsjónir,“ segir í tilkynningu frá Hafnarborg.

Hafnarborg var stofnuð með gjafabréfi sem afhent var Hafnarfjarðarbæ þann 1. júní 1983 af hjónunum Ingibjörgu Sigurjónsdóttur og Sverri Magnússyni, sem starfræktu Hafnarfjarðar-Apótek og áttu heima við Strandgötu 34, þar sem safnið er nú til húsa. Í gjafabréfi þeirra hjóna var meðal annars kveðið á um hlutverk stofnunarinnar sem skyldi vera að efla alhliða lista- og menningarlíf í Hafnarfirði með rekstri listasafns, auk salarkynna fyrir tónleika og aðra skylda starfsemi. Þá taldi stofngjöf þeirra tæplega 200 listaverk eftir marga af frumherjum íslenskrar myndlistar og hefur safneign Hafnarborgar haldið áfram að vaxa æ síðan en hún telur að svo stöddu nærri 1600 verk.

Safneignin óx einkum hratt í upphafi þegar það tíðkaðist að listamenn greiddu leigu fyrir afnot af sýningarsölum í formi listaverkagjafa, enda þótt þetta fyrirkomulag hafi síðar lagst af. Í framhaldinu má segja að safneignin hafi vaxið með markvissari hætti, til dæmis með stofnun listráðs Hafnarborgar, sem starfar nú samkvæmt gildandi söfnunarstefnu frá árinu 2009. Þá býður sýningin gestum að hugleiða þróun safnsins og safnkostsins í menningarumhverfi áranna eftir efnahagshrunið 2008 og fram til dagsins í dag, þegar við sjáum víða svipuð teikn á lofti og greina mátti þá – þenslu og þrengingar – sem svo vekja upp spurningar um gildi lista og menningar fyrir samfélagið í heild, ekki síður en komandi kynslóðir.

Á sýningunni getur að líta úrval verka sem safnið hefur eignast síðan 2008 – á undanförnum fimmtán árum – eftir listamenn á borð við Egil Sæbjörnsson, Georg Guðna, Guðnýju Rósu Ingimarsdóttur, Harald Jónsson, Hildigunni Birgisdóttur, Ingólf Arnarsson, Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur, Philipp Valenta, Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur og Unu Björgu Magnúsdóttur. Þá hafa sum verkanna ekki verið sýnd áður í Hafnarborg.

Ummæli

Ummæli

RELATED ARTICLES
- Advertisment -

Nýjustu greinar

H2