Tónlistarskóli Hafnarfjarðar fagnar 75 ára afmæli sínu á þessu ári og í tilefni þess heldur skólinn glæsilega afmælistónleika í Íþróttahúsinu við Strandgötu á laugardaginn kl. 13 og 15.
Hátt í 300 ungmenni á aldrinum 5 ára til tvítugs spila á tónleikunum en alls eru um 600 börn í skólanum í vetur.
Um 100 manna lúðrasveit Tónlistarskólans í Hafnarfirði flytur lagið Uprising eftir ensku rokksveitina Muse. Stórsveit, sinfóníuhljómsveit, Suzuki-hópar, strengjasveitir, rytmískt samspil, gítarsveit, blokkflautusveit, píanósveit, harmónikusveit og skólakór taka þátt í tónleikunum.
Töluvert af starfandi atvinnuhljóðfæraleikurum hafa útskrifast úr skólanum og segir Eiríkur Stephensen að meira að segja forsætisráðherrann hafi verið píanónemandi í skólanum.
Eyþór Ingi syngur og Helga Björg kynnir
Eyþór Ingi söngvari syngur með bæði stórsveitinni og lúðrasveitinni á tónleikunumn, sem eru tvennir þennan laugardag. Annars vegar klukkan 13 og svo 15. Helga Björg Jóhönnu Arnardóttir er kynnir.
„Þetta verður stórfengleg stund og skemmtileg upplifun fyrir nemendur að spila í svona stórum böndum. Þau upplifa eitthvað alveg nýtt – öðruvísi en venjulega – og þið getið upplifað það með þeim,“ segir Eiríkur skólastjóri og hvetur sem flest til að mæta og njóta með þeim.
Miðasla er á TIX.is og við innganginn.