fbpx
Fimmtudagur, júní 13, 2024
HeimÁ döfinniNý sýning opnuð í Hafnarborg á laugardaginn

Ný sýning opnuð í Hafnarborg á laugardaginn

Laugardaginn 11. maí verður opnuð sýningin „Í tíma og ótíma“, þar sem sjónum er beint að margvíslegum birtingarmyndum tímans í verkum ‏þ‏‏riggja alþjóðlegra samtímalistakvenna, þeirra Örnu Óttarsdóttur, Leslie Roberts og Amy Brener.

Á sý‎ningunni er tíminn skoðaður í víðu samhengi, allt frá heimspekilegum vangaveltum um hugtak og eðli tímans til þeirrar persónulegu túlkunar á samtímanum sem einkennir verkin en hugleiðingar um tíma fléttast á mismunandi hátt inn í verk ‏og vinnuaðferðir allra þriggja.

„Handverkið sem finna má í verkum listakvennanna ber merki um þrá eftir hægagangi og íhugun sem mótsvar við hraða samtímans. Verk ‏þeirra mætti þannig lesa sem tilraun til að stöðva tímann eða jafnvel til þess að stíga út úr samtímanum og inn í óræðan tíma listaverksins,“ segir sýningarstjórinn Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir.

Sýningin verður opnuð kl. 14 og opið er til kl. 17. Aðgangur er ókeypis.

Arna Óttarsdóttir (f. 1986 á Íslandi) býr og starfar í Reykjavík. Hún lauk BFA-námi frá Listaháskóla Íslands árið 2009 og hefur haldið reglulegar sýningar síðan, ein og með öðrum, innanlands og utan. Á nýliðnum árum hefur hún haldið markverðar einkasýningar í Nýlistasafninu, i8 Gallerí og Harbinger. Árið 2021 voru verk hennar til sýnis á sýningunni Iðavöllur: Íslensk list á 21. öldinni í Listasafni Reykjavíkur. Verk hennar hafa til dæmis verið sýnd í Nordatlantens Brygge, Kaupmannahöfn; Turner Contemporary í Margate; Åplus í Berlín; Cecilia Hillström-galleríinu, Stokkhólmi and Asya Geisberg-galleríinu í New York.

Leslie Roberts (f. 1957 í Bandaríkjunum) vinnur verk sem drifin eru af litum, tungumáli og sjálfssettum reglum. Hún hefur haldið sýningar í New York-borg og víða um Bandaríkin, til dæmis í Minus Space, Marlborough-galleríinu, McKenzie Fine Art, 57W57 Arts, Pierogi, Kathryn Markel, Tiger Strikes Asteroid NY, PPOW, og Brooklyn-safninu í New York; Weatherspoon-listasafninu (Greensboro, NC); og Wellin-safninu (Clinton, NY). Árið 2024 fékk hún styrki frá Gottlieb-sjóðnum og Pollock Krasner-sjóðnum. Hún hefur dvalið sem listakona í Yaddo, Ucross, Ragdale, Virginiu-listamiðstöðinni, Skowhegan, og víðar. Hún er með BA-gráðu frá Yale og MFA frá Queens College. Leslie hefur búið í Brooklyn í rúmlega þrjá áratugi og er Professor Emerita við Pratt-stofnunina.

Amy Brener (f. 1982 í Kanada) býr og starfar í New York. Hún útskrifaðist með MFA-gráðu frá Hunter College árið 2010 og nam við Skowhegan School of Painting and Sculpture 2011. Verk hennar hafa verið sýnd í galleríum og stofnunum í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu og Kína. Þar ber hæst sýningar í MoMA PS1 í New York, Aldrich-nýlistasafninu í Connecticut, Nasher-skúlptúrmiðstöðinni í Dallas, Speed-listasafninu í Kentucky, Galerie Pact í París, Wentrup-galleríinu í Berlín, MacLaren-listamiðstöðinni í Ontario og Riverside-listasafninu í Beijing. Um verk hennar hefur einnig verið fjallað í prentmiðlum á borð við The New York Times, Art in America, Vogue, CURA, Hyperallergic, Artnet News og The Brooklyn Rail. Hún er aðstoðarprófessor við Hamilton College í Clinton, NY.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2