fbpx
Föstudagur, mars 29, 2024
HeimÁ döfinniKvartettinn Beija-Flor flytur Brasilíska veislu á síðdegistónleikum í Hafnarborg

Kvartettinn Beija-Flor flytur Brasilíska veislu á síðdegistónleikum í Hafnarborg

Kvartettinn Beija-Flor flytur Brasilíska veislu á síðdegistónleikum í Hafnarborg á föstudag kl. 17.30.

Kvartettinn skipa þau Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir á básúnu, fiðlu og söng, Alexandra Kjeld á kontrabassa og söng, Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar og Einar Scheving á slagverk.

Á efniskránni verður sannkölluð Brasilísk veisla og mun kvartettinn leika lög eftir marga helstu höfunda brasilískrar tónlistar. Má þar helst nefna Antonio Carlos Jobim, Djavan, Paulinho da Viola og Luiz Bonfa.

Takmarkað sætaframboð og gestir beðnir um að nota grímur

Sætaframboð á tónleikunum er takmarkað í samræmi við viðmið heilbrigðisyfirvalda. Hafnarborg beinir þeim tilmælum til gesta að þeir noti grímu.

Aðgangur er ókeypis.

Alexandra Kjeld kontrabassaleikari nam fiðluleik um árabil og lauk BA prófi í tónlistarfræði (musicologie) frá Université de Paris IV – la Sorbonne árið 2006, með áherslu á menningarstjórnun. Skömmu síðar hóf hún nám á kontrabassa, fyrst í Tónlistarskóla FÍH hjá Róberti Þórhallssyni og síðar hjá Hávarði Tryggvasyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Alexandra hefur komið fram á fjölda tónleika og tónleikahátíða í gegnum árin, m.a. á Iceland Airwaves, Menningarnótt, Þjóðlagahátíð á Siglufirði, Sumartónleika í Skálholti, og hefur spilað og sungið með ýmsum hópum, m.a. Orkester Norden, Schola Cantorum, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Söngsveitinni Ægisif. Alexandra er stofnmeðlimur hljómsveitanna Los Bomboneros og Umbru og og hefur m.a. í gegnum þau störf rannsakað þjóðlagatónlist Evrópu og Suður-Ameríku sem og tónlist miðalda. Hún hefur einnig gegnt ýmsum stjórnar- og dómnefndarstörfum í gegnum árin og komið að tónlistarútgáfu, tónlistargagnrýni og greinarskrifum um tónlist í fjölmiðlum.

Andrés Þór Gunnlaugsson lauk burtfararprófi frá Tónlistarskóla FÍH 1999, BA gráðu í jazzgítarleik og kennslufræðum frá Konunglega tónlistarháskólanum í Haag í Hollandi 2004 og MA gráðu frá sama skóla árið 2006.  Andrés hóf að starfa sem hljóðfæraleikari 1994 á dansleikjum en síðari ár hefur hann verið virkur í íslensku tónlistarlífi með eigin jazzhljómsveitir auk þess að starfa sem hljóðfæraleikari í hljóðverum, tónleikauppfærslum og í leiksýningum.  Andrés hefur gefið út fjölmarga hljómdiska í eigin nafni sem og í samstarfi við aðra. Andrés hlaut íslensku tónlistarverðlaunin 2019 fyrir tónverk ársins í jazz og blúsflokki og var útnefndur Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2014.

Einar Scheving hefur verið eftirsóttur trommu- og slagverksleikari í djass-, popp- og klassískri tónlist frá unglingsaldri og hefur hann leikið inn á vel yfir 100 geisladiska. Einar útskrifaðist frá Tónlistarskóla FÍH, stundaði framhaldsnám við University of Miami og lauk þaðan MA-prófi árið 2002. Hann varð kennari við skólann að námi loknu, en samhliða því starfaði hann sem tónlistarmaður þar vestra. Einar hefur lagt aukna áherslu á tónsmíðar í seinni tíð, og hefur hann þrisvar hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin, m.a. fyrir plöturnar Cycles (2007) og Land míns föður (2011). Báðar þessar plötur hlutu mikið lof gagnrýnenda jafnt hérlendis sem erlendis. Nýjasta plata Einars, Intervals, kom út í október 2015 og hefur þegar vakið mikla athygli, auk þess að hljóta tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2015. Einar hefur kennt við Tónlistarskóla FÍH frá árinu 2006.

Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir hóf tónlistarnám sitt í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem fiðlan og básúnan urðu fyrir valinu. Eftir að hafa lokið BA gráðu úr heimstónlistardeild Codarts í Rotterdam tóku við sjálfstæðar námsferðir til Brasilíu ásamt tónleikaferðalögum með ýmsum hljómsveitum. Eftir þrjú ár í ferðatösku var snúið heim og hefur Sigrún verið virkur flytjandi og útsetjari í íslensku tónlistarlífi. Sigrún leikur með ýmsum hljómsveitum sem og latin kvartettnum Los Bomboneros, grískri kaffihúsahljómsveit Syntagma Rembetiko auk þess að vera fastur meðlimur Stórsveitar Reykjavíkur ásamt afleysingum í Þjóðleikhúsinu. Auk flytjendastarfsins kennir Sigrún í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Menntaskóla í Tónlist (MÍT) auk útsetninganámskeiðs við Listaháskóla Íslands. Sigrún gaf út plötuna Hljóð (sound/silence) sem var tekin upp í Rio og á Íslandi. Platan er einskonar listamannsprófíll og frumraun hennar í tónsmíðum.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2