Hádegistónleikum streymt á netinu

Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópran syngur aríur úr óperum

Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, sópran

Hanna Þóra Guðbrandsdóttir, sópran, syngur á hádegistónleikum í Hafnarborg á morgun, þriðjudag kl. 12, við undirleik Antoníu Hevesi, píanóleikara sem jafnframt er listrænn stjórnandi tónleikanna.

Dísætir tónar

Á tónleikunum sem bera yfirskriftina Dísætir tónar verða fluttar aríur úr óperunum La Bohème og Tosca eftir G. Puccini og Adriana Lecouveur eftir F. Cilea.

Vegna aðstæðna verða tónleikarnir haldnir fyrir tómum sal en streymt beint á netinu.

Hádegistónleikar í Hafnarborg

Watch netsamfelag.is’s Hádegistónleikar í Hafnarborg on Livestream.com.

Hanna Þóra Guðbrandsdóttir hóf söngnám við Tónlistarskólann á Akranesi árið 1996. Haustið 1999 innritaðist hún í Söngskólann í Reykjavík og hafa kennarar hennar þar verið Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Signý Sæmundsdóttir og Kolbrún Sæmundsdóttir. Þaðan lauk hún 8. stigsprófi vorið 2005. Hún hefur stundað söngnám í Kaupmannahöfn, Osló og Berlín í gegnum árin. Hún hefur sótt meistaranámskeið og söngtíma hjá ýmsum kennurum m.a.Sigríði Ellu Magnúsdóttur, Krisjáni Jóhannsyni, André Orlowitz, Lauru Brooks Rice, Janet Williams, Kristni Sigmundssyni, Jónasi Ingimundarsyni og Margaret Singer. Meðal hlutverka sem Hanna dóra hefur sungið má nefna Genovefu úr Systir Angelica eftir Puccini, Greifynjuna í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart, Fiordiligi í Cosí fan tutte eftir Mozart, Ines í Il Trovatore eftir Verdi, Serpinu í La serva Padrona eftir Pergolesi, Countess Susanna í Il segreto di susanna eftir Ermanno Wolf Ferrari, Traumännchen og Sandman í Hans og Grétu eftir Engelbert Humperdincks,  Gerhilde í Die Walkure eftir Wagner. Hanna Þóra var einsöngvari í óperunni Ragnheiði eftir þá Gunnar Þórðarsson og Friðrik Erlingsson sem sett var upp í Íslensku óperunni 2014. Hún fór líka með hlutverk í óperunni Skáldið og biskupsdóttirin eftir þær Alexöndru Chernyshova og Guðrúnu Ásmundsdóttur sem var frumflutt í Hallgrímskirkju í Saurbæ vorið 2014. Hanna Þóra hefur einnig farið með sópranhlutverkið í Oratorio de Noél eftir Camille Saint-Saens og flutt Stabat Mater eftir Pergolesi ásamt kammerhópnum ReykjavíkBarokk. Í júlí 2015 söng Hanna Þóra Hlutverk Gerhilde í Die Walkure eftir Wagner í  sumar prógrammi Norsku Óperunnar. Hanna Þóra söng í tónleikaröð Classical Concert Company Reykjavík frá upphafi.

Sumarið 2008 var Hanna Þóra valin til þess að syngja í International Hans Gabor Belvedere Competiton. Það er ein stærsta keppni í heimi fyrir unga og upprennandi óperusöngvara. Hún hefur margoft sungið sem einsöngvari með ýmsum kórum og við kirkjulegar athafnir. Eins hefur hún oft komið fram á vegum Íslensku Óperunnar þá bæði með kór Íslensku Óperunnar og sem einsöngvari. Hún hefur verið ötul í að setja upp hina ýmsu tónleika og lagt áherslu á að efla menningarlíf bæjarfélags síns Akranes og Vesturlands. Hanna Þóra var bæjarlistamaður Akraness árið 2011.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, þar sem hún hefur fengið marga af fremstu söngvurum landsins til liðs við sig. Hádegistónleikar eru að venju á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Ummæli

Ummæli