fbpx
Fimmtudagur, apríl 18, 2024
HeimÁ döfinniGuðrúnarkviða frumsýnd í Gaflaraleikhúsinu í kvöld

Guðrúnarkviða frumsýnd í Gaflaraleikhúsinu í kvöld

Eyrún Ósk Jónsdóttir er höfundur og leikur öll hlutverkin í sýningunni

Í kvöld, föstudag, verður einleikurinn Guðrúnar­kviða frumsýndur í Gaflaraleikhúsinu. Guðrúnarkviða er eftir Eyrúnu Ósk Jónsdóttur sem einnig leikur öll hlut­verkin í sýningunni. Samnefnd bók eftir Eyrúnu kom út árið 2020 hjá Bjarti og Veröld og vakti hún mikla athygli og fékk góða dóma.

Eyrún ætti að vera Hafnfirðingum vel kunn en hún hefur sent frá sér fjölda bóka og sett upp og skipulagt hina ýmsu listaviðburði hér í Hafnarfirði, m.a gjörninga, listaverkasýningu, leikrit og ljóðaviðburði. Þá hefur hún að undanförnu sent frá sér mörg hlaðvarpsleikrit með hafnfirska listahópnum, Listahópurinn Kvistur.

Guðrúnarkviða fjallar um Guðrúnu sem vaknar í kistu í eigin jarðarför en kann ekki við að trufla athöfnina. ,,Þetta er svona kolsvartur tragískur gamanleikur um meðvirkni. Guðrún hefur alla tíð reynt að láta lítið fyrir sér fara og aldrei viljað vera með vesen. Þegar hún svo vaknar upp í eigin jarðarför áttar hún sig á að hún hefur allt sitt líf verið að þóknast væntingum annarra og getur ekki hugsað sér að trufla þó að líf hennar liggi nú við,“ segir Eyrún.

Eyrún skrifaði verkið fyrst sem leikrit, áður en það kom út sem bók, og sýndi tvær sýningar í Lífsgæðasetrinu í lok árs 2019. Verkið var upphaflega leikstýrt af Hildi Kristínu Thorstensen og það var svo Ólafur Torfason sem samdi tónlistina fyrir leikritið. Einleikurinn átti síðar að fara á svið vorið 2020 og á hinar ýmsu leiklistarhátíðir sumarið 2020 en því var öllu aflýst sökum samkomu­banns. Þá átti að setja það á svið 2021 en aftur kom til samkomubanns og hátíðum aflýst að nýju.

Verkið er nú enduruppsett í samstarfi við Gaflara­leikhúsið og með aðstoð Bjarkar Jakobsdóttur. ,,Það er mikil gleði að þetta skuli loks verða að veruleika. Og alveg frábært að fá tækifæri til að þróa verkið frekar með aðstoð Bjarkar Jakobsdóttur. Maðurinn minn er auðvitað ánægðastur allra að verkið sé nú að fara í sýningu en hann hefur þurfta að þola að við höfum verið að geyma líkkistu heima hjá okkur í þrjú ár,“ segir Eyrún.

Gaflaraleikhúsið hefur frá upphafi lagt metnað sinn í að sýna ný áhugaverð verk eftir íslenska höfunda og hafnfirska höfunda.

Sýningar verða 31. mars og 1. apríl kl. 20.00 og er um klukkutíma að lengd. Hægt er að kaupa miða á Tix.is

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2