ASA tríóið leikur á Síðdegistónum í Hafnarborg á föstudag

Andrés, Agnar, Jóel og Scott

A föstudaginn kl. 18 mun ASA Tríó koma fram á Síðdegistónum í Hafnarborg ásamt saxófónleikaranum Jóel Pálssyni en saman munu þeir leika efni af plötu sem þeir félagar gáfu út í fyrra.

Platan nefnist Another Time og var hljóðrituð snemma árið 2020 þegar allt lá í dvala í samfélaginu. Fékk platan Íslensku tónlistarverðlaunin sem hljómplata ársins 2022 í flokki djasstónlistar. Á plötunni eru verk eftir alla fjóra meðlimi hljómsveitarinnar og eru þau sérstaklega samin fyrir þetta verkefni. Áhrifin koma víðs vegar að og má heyra í indí-skotnum, lagrænum ópusum, ágengum módalverkum og fönk-blúsuðum, búgalú-skotnum lögum til meginstefnudjasstónsmíða með miðjarðarhafsblæ

ASA Tríó hefur verið starfrækt frá árinu 2005 en sveitin hefur gefið út tvær hljómplötur í eigin nafni, auk þess að gefa út nokkrar hljómleikaútgáfur sem eru aðgengilegar á stafrænu formi á heimasíðu tríósins.

Tríóið skipa þeir Andrés Þór, gítarleikari, Agnar Már Magnússon, orgel- og hljómborðsleikari, og Scott McLemore, trommuleikari. Þeim til fulltingis er svo saxafónleikarinn Jóel Pálsson sem er tónlistaráhugafólki að góðu kunnur. Jóel hefur verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi um árabil og hefur gefið út fjölmargar hljómplötur sem hafa fengið góðar viðtökur og hlotið fjölda viðurkenninga.

Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.

Tónleikaröðin er styrkt af Hafnarfjarðarbæ, Tónlistarsjóði Rannís og Menningarsjóði FÍH.

Ummæli

Ummæli