Það er kominn kosningavetur og flokkar farnir að gíra sig upp fyrir sveitastjórnarkosningarnar 16. maí næstkomandi. Við í Viðreisn erum þar engin undantekning og við erum byrjuð að undirbúa okkur fyrir þessa miklu lýðræðishátíð, þar sem hin raunverulegu völd færast í hendur kjósenda.
Við í Viðreisn í Hafnarfirði erum á fullu við undirbúning og höfum hafið vinnu við stefnumótun og málefnaáherslur. Það er ánægjulegt að finna fyrir auknum áhuga fólks á Viðreisn og það gleður mig sem oddvita að sjá góða fylgisaukningu í skoðanakönnunum en ekki síður að sjá fjölda nýrra meðlima og þátttakenda í starfinu.
Ég vil því bjóða þér lesandi góður að taka þátt við að móta okkar góða samfélag og mæta á málefnafundi og hafa áhrif. Samtakamátturinn er það sem gildir og við tökum vel á móti þér.
Ef þú ert frjálslynd miðju/hægri manneskja sem aðhyllist persónufrelsi, athafnafrelsi, valfrelsi í þjónustu og vilt opið og nútímalegt samfélag þá áttu heima í Viðreisn.
Ef þú aðhyllist stöðugleika í efnahags og fjármálum, trausta fjármálastjórn, langtímahugsun og aukna samvinnu sveitarfélaga, þá er Viðreisn þinn flokkur.
Ef þú vilt sjá almannahagsmuni framar sérhagsmunum þá er Viðreisn þitt pólitíska heimili.
Við tökum vel á móti þér og viljum heyra í þér. Í stjórnmálum skiptir öllu máli að hlusta. Hægt er að fylgjast með okkur á facebook og instagram. Það má líka hafa samband við okkur sem höfum valist til forystu í flokknum.
Í janúar verður kosið um efstu tvö sætin í prófkjöri og í kjölfarið verður stillt upp sigurstranglegum lista. Viðreisn mun mæta vel mönnuð til kosninga, með skýra sýn. Vertu með og hafðu áhrif.
Jón Ingi Hákonarson
oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar



