Fimmtudagur, nóvember 13, 2025
target="_blank"
HeimUmræðanBílastæðamál í Hafnarfirði

Bílastæðamál í Hafnarfirði

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri skrifar

Bílastæði eru grunnforsenda þess að miðbærinn í Hafnarfirði geti verið aðlaðandi og aðgengilegur. En þegar nýting stæða fer að nálgast hámark þarf að stýra málum af ábyrgð. Stjórnun bílastæða snýst ekki um að flækja hlutina, heldur um að tryggja að allir íbúar, gestir og fyrirtæki hafi raunverulegt aðgengi þegar á þarf að halda.

Greining á stöðunni

Í sumar var unnin ítarleg greining á notkun bílastæða í miðbæ Hafnarfjarðar, nánar tiltekið við Fjörð, Hafnarfjarðarkirkju, bílakjallarann, stæðin aftan við ráðhúsið og við Strandgötu. Greiningin var framkvæmd með sjálfvirkum myndavélum sem skönnuðu bílnúmer og skráðu nýtingu.

Niðurstöðurnar sýna að víða er fullnýting yfir daginn og að margir bílar eru geymdir yfir nótt. Við Fjörð fara um 2.000 bílar á dag um stæðin og þau eru nánast fullnýtt frá kl. 10:00 til 16:00. Um 40–100 bílar eru geymdir þar yfir nótt. Við Hafnarfjarðarkirkju eru 10–20 bílar geymdir yfir nótt og álagstímar eru bæði í hádeginu og á kvöldin. Stæðin aftan við ráðhúsið og við Strandgötu sýna svipað mynstur, góð nýting á daginn og nokkur fjöldi bíla sem er yfir nótt.

Þessar niðurstöður benda til þess að margir noti bílastæðin í miðbænum til langtímageymslu, sem dregur úr aðgengi þeirra sem koma til að sækja verslun, þjónustu eða viðburði.

Tillögur að úrbótum

Bæjarstjórn samþykkti samhljóða á fundi sínum í maí sl. stofnun bílastæðasjóðs sem sér um rekstur, eftirlit og þjónustu tengda bílastæðum. Fyrsta skrefið er að hefja eftirlit með stöðvunarbrotum í Hafnarfirði eins og ólöglegri lagningu eða geymslu stórra ökutækja í íbúðahverfum og bílastæðum sem ætluð eru fyrir einkabíla. Við munum nýta til þess innviði og mannauð bæjarins. Einnig ætlum við að hefja undirbúning að hönnun og fyrirkomulagi bílastæðahúss í miðbænum.

Mikilvægt er að í framhaldinu verði unnið að framtíðarfyrirkomulagi bílastæðamála í miðbæ Hafnarfjarðar til að auka aðgengi gesta að þjónustu og verslun í miðbænum. Þar þurfum við að vanda vel til verka í samvinnu við allt samfélagið. Það er alveg ljóst að við erum ekki að fara taka upp Reykjavíkurleiðina þar sem rukkað er fyrir lagningu bíla frá fyrstu mínútu. Við viljum tryggja að þeir sem ætla sér að nýta þjónustu og verslun miðbæjarins okkar geti gert það áhyggjulaus og í gjaldfrjálsum stæðum. Það er mikilvægt.

Með ábyrgri stýringu til betra aðgengis

Öflug verslun og þjónusta getur ekki þrifist í miðbænum án góðs aðgengis að bílastæðum. Með því að fara í aðgerðir sem þessar, sem byggðar eru á gögnum, þá erum við að tryggja öllum jafnt aðgengi, öryggi og heilbrigða nýtingu bílastæða ásamt því að styrkja rekstrargrundvöll þeirrar þjónustu sem er til staðar í miðbænum og fer vaxandi. Með nútímalegum og skynsamlegum lausnum, einföldum reglum og gagnsæjum ferlum getur Hafnarfjörður orðið fyrirmynd annarra sveitarfélaga þegar kemur að bílastæðamálum og aðgengi að þeim.

Valdimar Víðisson,
bæjarfulltrúi og bæjarstjóri í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2