Sýningu Þóris Gunnarsson, Eldingu lýkur á miðvikudag en þá, kl. 17-19 býðst fólki að hitta listamanninn sjálfan, Þóri Gunnarsson, sem einnig er þekktur undir listamannsnafninu Listapúkinn.
Þórir, sem er listamanneskja Listar án landamæra 2025, verður á staðnum á einkasýningu sinni í Hafnarborg með efni til listsköpunar og býður upp á lifandi gjörning þar sem hann teiknar gesti og gangandi á sinn einstaka og skapandi hátt.
Þannig verður til lifandi samtal milli listamanns, verks og áhorfanda, þar sem línurnar spretta beint upp úr augnablikinu.
Á sýningunni leiðir Þórir gesti inn í myndheim sem er jafnt persónulegur og býr yfir mikilli leikgleði. Þórir sækir innblástur hvaðanæva úr nærumhverfi sínu – svo sem úr strætó- og hlaupaferðum eða náttúrunni – og áhugi hans á mannlífi og íþróttum endurspeglast í krafti verkanna. Þá vinnur hann einkum með teikningu og vatnsliti og í verkunum renna saman athugun og upplifun þar sem lag eftir lag af efni og hugmyndum skapar nýjan veruleika.
Á þessum lokaviðburði munu gestir einnig fá tækifæri til að eiga spjall við Þóri um listsköpun hans, ferlið að baki verkunum og hvað það er sem kveikir neistann í sköpun hans. Þá er þetta kjörin stund til að skyggnast dýpra inn í heim sýningarinnar og kynnast listamanninum og sköpunarferli hans. Boðið verður upp á kaffi og kleinur og lofum við hlýlegri og skapandi stemningu.
Þórir starfar hjá Listvinnzlunni sem listamaður, ráðgjafi og aðstoðarkennari og hefur lagt áherslu á að auka aðgengi fatlaðs fólks að menningu og listnámi. Fyrir það frumkvöðlastarf hlaut hann Múrbrjót Þroskahjálpar árið 2021. Verk hans hafa verið sýnd víða, meðal annars í Norræna húsinu, Gerðarsafni og Listasafni Reykjavíkur, auk þess sem hann hefur verið útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar.
Aðgangur er ókeypis


