Fasteignaskatturinn hefur lengi verið mér hugleikinn. Hann er lunginn af fasteignagjöldum sem tekur mið af fasteignamati. Fyrir flesta er þetta einungis bókhaldslegt fyrirbæri sem hefur engin áhrif nema þegar eignin er seld, þá myndast söluhagnaður eða sölutap og þegar skattheimta er ákvörðuð.
Það að miða skattheimtuna við fasteignamat er í mínum huga ósanngjörn leið til skattlagningar þar sem hún er í engu samræmi við tekjur viðkomandi og þar sem við greiðum skatta með tekjum okkar þá finnst mér það umhugsunarvert hvort ekki sé heppilegra að endurskoða þennan skattstofn. Heimili okkar er ekki fjárfesting í hinum hefðbundna skilningi þess orðs þar sem fjárfesting í heimili skilar okkur ekki neinum tekjum eins og hefðbundnar fjárfestingar gera. Heimili okkar er skuldbinding og flest okkar greiðum af lánum langt fram eftir aldri.
Okkar sveiflótta hagkerfi býr reglulega til eignabólur. Þessar eignabólur eru fullar af heitu lofti væntinga og hafa lítið með grunnrekstur sveitarfélaga að gera. Útgjöld sveitarfélaga hækkar ekki vegna hækkunar á fasteignamati. Það er engin tengin þar á milli. Pólitíkin hefur nýtt þetta sem tækifæri til að lækka skattprósentuna lítillega og básúnar það út sem skattalækkun.
Væri ekki sanngjarnara, fyrirsjáanlegra og eðlilegra að miða fasteignaskattinn við fermetrafjölda eignarinnar og miða breytingar á þessum gjöldum við launavísitöluna? Þannig væri þessi skattur fyrirsjáanlegri og sanngjarnari.
Það er að minnsta kosti kominn tími til að endurskoða þessa skattheimtu.
Jón Ingi Hákonarson
oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar
Greinin birtist fyrst í októberblaði Fjarðarfrétta


