Laugardagur, júlí 12, 2025
HeimFréttirLífshlaup Hönnu Kjeld í ljósi og skugga

Lífshlaup Hönnu Kjeld í ljósi og skugga

Ný bók um öfluga konu sem svo margir Hafnfirðingar þekkja

Hanna Kjeld – lífshlaup í ljósi og skugga, er heiti á nýrri bók um magnaða konu sem svo margir Hafnfirðingar þekkja úr matreiðslunámi og síðar m.a. stærðfræðinámi í Flensborg.

Magnús Valur Pálsson skráði lífshlaup Hönnu sem að mörgu leyti er merkilegt en þó samt ekkert ólíkt lífi svo margra annarra. Þetta eru m.a. sögur frá æskuárum hennar suður með sjó og í Færeyjum. Sögur frá Flensborgarárunum og sitthvað fleira kemur líka við sögu.

Hanna og Kristbjörg systir hennar ásamt Þorkelínu ömmu þeirra og Guðfinnu móðursystur. Myndin er tekin árið 1942.

Í bókinni er farið yfir lífshlaup Hönnu og því skipt niður í níu tímabil en svo er hún spurð nokkurra persónulegra spurninga sem hún svarar skilmerkilega.

Hanna er opinská í bókinni og segir frá skilnaði við eiginmann sinn sem tók heil sex ár og hafði greinilega mikil áhrif á líf hennar og fjölskyldunnar en Hanna stóð eftir með sex börn og það yngsta sex ára. En lesendur fá að kynnast baráttukonunni Hönnu Kjeld sem án þess að berja í trumbur, lét mótbyrinn ekki aftra sér frá að ala upp börn sín, mennta sig og stunda sína vinnu. „Ég bognaði undan þessu, en brotnaði þó ekki. Mér fannst ég vera föst í þessum drullupolli allt of lengi. Ég ásakaði sjálfa mig, ég hefði getað gert þetta og hefði getað gert hitt. Þetta var alveg ömurlegt tímabil í mínu lífi,“ segir Hanna í bókinni.

Hanna og Kristbjörg systir hennar við fyrrum heimili ömmu þeirra og afa í Funningsbotni í Færeyjum.

Hanna flutti úr Hafnarfirði þar sem henni fannst ekki vært þar og fór að kenna á Húsmæðraskólanum á Laugarvatni. Skilnaðurinn var mikið á milli tannanna á fólki, að sögn Hönnu enda skilnaður þá ekki eins algengur og síðar varð. Var hún þar ein með fjögur börn. Árið 1975 flutti hún aftur til Hafnarfjarðar eftir þriggja ára dvöl á Laugarvatni og enn beið gamla starfið hennar í Flensborg sem segir kannski nokkuð um það hvernig hún var metin sem kennari.

Bókin segir frá lífi Hönnu sem var greinilega ávallt tilbúin að takast á við nýjar áskoranir, hún fór einn túr sem kokkur á fraktskipi, fór í sumarnámskeið á vegum BBC í London, sótti námskeið á vegum Fulbright stofnunarinnar í Bandaríkjunum, fór í öldungadeildina í Hamrahlíð og lauk stúdentsprófi 48 ára gömul. Hún fór svo í nám í matvælafræði við Háskóla Íslands þar sem hún lærði m.a. efnafræði, eðlisfræði og stærðfræði sem kom henni vel í Flensborg þegar hún tók að sér kennslu í efnafræði og stærðfræði.

Mynd frá árinu 1998 af Hönnu og börnum hennar, f.v. Jón Rúnar, Matthildur, Kári, Ásgerður, Halldór og Viðar Halldórsbörn.

„Ég reyni að sjá það jákvæða, þrátt fyrir að ýmislegt hafi gengið á.
Ég hef svo margt og mikið að þakka fyrir.“

Hanna kenndi í Flensborg í tæp fimmtíu ár, en áður hafði hún verið nemandi við skólann frá 12 ára aldri. Hún var ein af stofnendum fimleikafélagsins Björk árið 1951. Það má segja að Hafnarfjörður sé aðal sögusvið bókarinnar þó aðrir staðir komi þar einnig við sögu.

Eftir að hafa verið nemandi í Flensborgarskólanum 1946-1949, kenndi Hanna við við skólann með stuttum hléum frá árinu 1955 til 2003.
Hanna Kjeld í Flensborg um 1976. Ljósmynd: Guðni Gíslason.
Hanna Kjeld í Flensborg um 1976. Ljósmynd: Guðni Gíslason.

Magnús Valur Pálsson segir Hönnu mikinn húmorista sem segi skemmtilega frá. „Því kynntist ég fyrst af eigin raun fyrir um 35 árum þegar við Jóna Guðrún Jónsdóttir, systurdóttir hennar, hófum samband. Mér þóttu sögurnar hennar alltaf svo óviðjafnanlega skemmtilegar og fannst að þær þyrfti að skrá niður. Hún var til í að taka þátt í því með mér og núna er þessi bók loksins komin út, en við höfum verið að vinna að þessu í skorpum og með löngum hléum á milli síðastliðin fimm ár.“

Hanna Kjeld ásamt Trausta Ó. Lárussyni 2016. Ljósmynd: Guðni Gíslason.

Sambýlismaður Hönnu frá 2008 var Trausti Ó. Lárusson sem þá hafði misst konu sína en þau voru vinafólk frá fyrri tímum.

Bókin er áhugaverð og segir svo margt áhugavert um lífshlaup og ævintýri Hönnu Kjeld sem svo margir bæjarbúar þekkja enda virðist hún ansi minnug á gamla nemendur sína.

 

 

 

 

 

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2