Vellíðan nemenda og starfsmanna

Valdimar Víðisson skrifar

Valdimar Víðisson

Það að nemendum og starfsmönnum líði vel á vinnustað skiptir öllu máli fyrir farsælt skólastarf. Ef nemendum líður ekki vel verður námið erfiðara, félagsleg tengsl verða viðkvæmari og skólaleiði eykst. Ef mikið álag er á starfsmönnum veldur það vanlíðan í starfi og í versta falli kulnun sem er vaxandi vandamál meðal starfsmanna skóla. Framsókn og óháðir ætla að fara í markvissar aðgerðir í leik- og grunnskólum og ég hvet Hafnfirðinga til að kynna sér helstu áherslur framboðsins með því að lesa stefnuskrá og/eða mæta í kaffi á kosningaskrifstofunni Strandgötu 75.

Matráður

Í mötuneyti starfsmanna í grunnskóla er mikilvægt að það sé matráður sem hefur til morgunhressingu, sér um hádegismat og sinnir almennum störfum á kaffistofu starfsmanna. Það er áreiti í daglegu starfi innan grunnskólans og því réttlætismál að starfsmenn geti sest niður í rólegra umhverfi og gengið að því vísu að hafa aðgengi að morgunhressingu og mat í hádeginu á kaffistofunni. Framsókn og óháðir ætla að sjá til þess að það verði sett fjármagn í að ráða starfsmann í mötuneyti starfsmanna.

Þrif

Í dag er tíðni þrifa í almennum skólastofum þrisvar í viku. Einu sinni í viku er skúrað og þurrkað af innanstokksmunum. Það er mikil umgengni um stofur og því skiptir miklu máli að þær séu vel þrifnar. Þegar vinnuaðstæður nemenda og starfsmanna eru ekki þrifnar oftar en þrisvar í viku þá hefur það áhrif á líðan. Við í Framsókn og óháðum ætlum að sjá til þess að tíðni þrifa í skólum verði endurskoðuð. Það er afar mikilvægt að stofur og svæði sem nemendur nota séu þrifnar einu sinni á dag.

Matráður og þrif eru dæmi um þætti sem hafa áhrif á líðan. Framsókn og óháðir ætla að vinna markvisst að því að auka vellíðan nemenda og starfsmanna.

Valdimar Víðisson
skólastjóri Öldutúnsskóla og skipar 2. sætið á lista Framsóknar og óháðra.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here