fbpx
Miðvikudagur, febrúar 21, 2024
HeimFréttirPólitíkSérhagsmunadekur, eftirlitsandúð og Fiskistofa

Sérhagsmunadekur, eftirlitsandúð og Fiskistofa

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Núverandi ríkisstjórn er mynduð um kyrrstöðu og sérhagsmuni. Sérhagsmunaöflin í Sjálfstæðis-og Framsóknarflokki stýra ferðinni og raunalegt er að fylgjast með verkstjórnarhlutverki VG við ríkisstjórnarborð sérhagsmuna.

Sérhagsmunagæslan á sér margar birtingamyndir. Ein þeirra er að veiðigjöldin sem útgerðin greiðir eru lægri en tóbaksgjaldið og önnur er að ríkisstjórnarflokkarnir hafa passað upp á að ákvæði um þjóðareign á auðlindum rati ekki í stjórnarskrá. Undirgefnin við sérhagsmunina er algjör. Ef ríkisstjórnin þarf að að velja á milli sérhagsmuna og almannahagsmuna velur hún sérhagsmunina.

Tennurnar dregnar úr skattrannsóknum

Andúðin á hvers kyns opinberu eftirliti er sérstaklega slæmur en óhjákvæmilegur fylgikvilli sérhagsmunadekursins. Og þar er af nægu að taka. Skemmst er að minnast þess þegar embætti Skattrannsóknarstjóra var lagt niður síðasta vetur og skattrannsóknarstjóri færður inn til skattsins og gerður að bitlausu verkfæri í rannsókn smærri skattsvikamála. Rannsókn stærri mála var svo færð til embættis Héraðssaksóknara.

Þegar Samherjamálið fræga kom upp árið 2019 benti héraðssaksóknari á að málastaða embættisins væri þung og erfitt væri að ljúka þeim málum sem voru í gangi og hvað þá ef stór mál eins og Samherjamálið bættust við. Í þessu ljósi verður það að teljast einkennileg ráðstöfun að fela embætti Héraðssaksóknara rannsókn stærri skattsvikamála. Við öllum blasir að ríkisstjórnarflokkarnir voru með þessu að draga tennurnar úr skattrannsóknum öllum skattsvikurum landsins eflaust til mikillar gleði. Auk þess hefur komið á daginn að slíkt sleifarlag hefur verið á framkvæmd þessara breytinga að stór mál hafa setið föst hjá skattrannsóknarstjóra frá því í maí og ekki fundið leið sína til héraðssaksóknara.

Andúðin á Samkeppniseftirlitinu

Aðförin að skattrannsóknum er ekki eina dæmið um andúð sérhagmunaaflanna á eftirliti í almannaþágu. Samkeppniseftirlitið hefur einnig fengið sinn skerf frá þessum öflum. Þau nýta hvert tækifæri sem gefst til þess að grafa undan Samkeppniseftirlitinu. Það er eitur í þeirra beinum og í hvert skipti sem Samkeppniseftirlitið bendir á brot gegn almenningi eru sérhagsmunaöflin mætt á svæðið til að verja vondan málstað. Og láta ekki deigan síga – aldrei.

Fiskistofuklúðrið

Hafnfirðingum er eflaust flestum í fersku minni þegar Fiskistofa var rifin upp með rótum úr bænum og starfsemi hennar flutt til Akureyrar. Flutningur Fiskistofu er eitt mesta stjórnsýsluklúður Íslandssögunnar og verður í kennslubókum framtíðarinnar sem dæmi um það hvernig ekki á að vinna hlutina. Í því tilfelli var um afar þrönga sérhagsmuni að ræða, nefnilega kjördæmapot til þess að þóknast pólitískum hagsmunum þáverandi forsætisráðaherra og fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins en núverandi formanns Miðflokksins. Þáverandi sjávarútvegsráðherra og núverandi formaður Framsóknarflokksins og hans samstarfsfólk í Framsóknarflokknum vann þetta óhæfuverk af mikilli alúð fyrir sinn fyrrverandi formann.

Afleiðingarnar af þessum gjörningi voru ekki bara alvarlegar fyrir Hafnarfjörð. Þær voru líka mjög alvarlegar fyrir starfsemi Fiskistofu og getu hennar til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Ekki var að sjá að vanmáttur Fiskistofu til að sinna skyldum sínum í kjölfar flutningsins hefði valdið forystumönnum þáverandi ríkisstjórnar miklu hugarangri nema síður sé. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Fiskistofu frá 2019 voru t.d. gerðar alvarlegar athugasemdir við að stofnunin gerði enga tilraun til þess að kanna hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum væri í samræmi við lög. Verður dekrið við sérhagsmunina nokkuð skýrara?

Ríkisstjórn um almannahag gegn sérhagsmunum

Samfylkingin vill sókn gegn sérhagsmunum. Við viljum hækka veiðigjöldin og setja sérstakt álag á stórútgerðina. Einnig ætlar Samfylkingin að stórefla skattaeftirlit og skattrannsóknir. Ný ríkisstjórn verður að vinna að þessum þáttum til þess að unnt verði að snúa af braut sérhagsmuna yfir á braut almannahagsmuna. Losa verður um tök sérhagsmunaflokkanna á stjórn landsins og gefa verður neitunarvaldi Sjálfstæðisflokksins við ríkisstjórnarborðið frí. Samfylkingin vill leiða saman ólík öfl frá miðju og til vinstri til þess að mynda nýja ríkisstjórn sem setur almannahagsmuni ofar sérhagsmunum og skorar sérhagsmunaöflin á hólm. En til þess að slík ríkisstjórn geti tekið til starfa þarf Samfylkingin á þínum stuðningi að halda í alþingiskosningunum þann 25. september. X-S á kjördag.

Árni Rúnar Þorvaldsson

Höfundur skipar 8. sætið á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2