fbpx
Fimmtudagur, desember 12, 2024
target="_blank"
HeimUmræðanSeltún – náttúruperla í hættu

Seltún – náttúruperla í hættu

Davíð Arnar Stefánsson skrifar

Seltún í Krýsuvík er náttúruperla og vinsæll ferðamannastaður í túnfætinum á höfuðborgarsvæðinu og Keflavíkurflugvelli. Hafnarfjarðarbær eignaðist Krýsuvíkurjörðina um miðbik síðustu aldar og við stofnun Reykjanesfólkvangs varð jörðin hluti af fólkvanginum. Árið 2016 komu 250 þúsund ferðamenn í Seltún og gera má ráð fyrir að þeir verði um 300 þúsund 2018. Samkvæmt skýrslu Umhverfisstofnunar um ástand friðlýstra svæða 2017 er fólkvangurinn á rauðum lista stofnunarinnar vegna vaxandi fjölda ferðafólks sem hefur framkallað aukið álag á helstu viðkomustaði, þar með talið Seltún.

Bregðast þarf við landhnignuninni í Seltúni með tafarlausum verndaraðgerðum og innviðum fyrir ferðafólk. Þær framkvæmdir sem þegar hefur verið ráðist í hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Móta þar framtíðarsýn fyrir staðinn sem felur endurskoðun á fyrri framkvæmdum og tillögum að nýjum. Þær gætu falið í sér að flytja bílastæðin svo þau spilli ekki sjónrænni fegurð staðarins; forsendugreiningu fyrir þjónustu við ferðafólk í samræmi við gestafjöldann; merkingar til að koma á framfæri hvatningu til gesta að halda sig á göngustígum; endurgerð göngustíga og skýrari afmörkun þeirra til að stýra umferð um svæðið betur en nú er; og aukinni landvörslu en nú er aðeins einn landvörður starfandi í fólkvanginum 6 mánuði á ári.

Gera má ráð fyrir að enduruppbygging í Seltúni sé kostnaðarsöm en orðspor sveitarfélagsins og ein af undirstöðum ferðaþjónustunnar er í húfi. Því þarf að að kanna rekstrarforsendur og möguleika á hóflegri gjaldtöku til að standa undir framkvæmdum og rekstri, svo sem bílastæðagjaldi, klósettgjaldi, sölu á varningi og veitingum. Raunverulega er kominn tími til að kanna byggingu á gestastofu á staðnum sem þjónað gæti Seltúni og Reykjanesfólkvangi.

Hvernig sem á það er litið er náttúruperlan í Seltúni í hættu og það er okkar Hafnfirðinga að vernda hana.

Davíð Arnar Stefánsson
er í 6. sæti á lista VG í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2