Réttur allra til að lifa með reisn!

Friðþjófur Helgi Karlsson skrifar

Friðþjófur Helgi Karlsson

Það er mikilvægt að allir bæjarbúar geti lifað lífi sínu með reisn. Lifað lífi sem byggt er á að sjálfsákvörðunarréttur hvers einstaklings sé virtur. Samfylkingin í Hafnarfirði leggur þunga áherslu á málefni eldri bæjarbúa og þeirra einstaklinga sem eru með fatlanir í okkar samfélagi út frá því að þörfum allra sé mætt á þeirra forsendum og að allir geti lifað með reisn.

Þarfir eldri borgara – stóreflum heimaþjónustu

Mikilvægt er að mæta ólíkum þörfum eldri borgara í bænum. Þjónusta við þá á að taka mið af þörfum hvers og eins. Við þurfum að tryggja að eldri íbúar þessa bæjar geti búið sem lengst heima kjósi þeir svo. Til þess að það geti orðið þarf að stórefla heimaþjónustu og auka gæði hennar. Skoða þarf þjónustuþarfir alveg upp á nýtt og útfæra kerfið þannig að þarfir notenda þjónustunnar séu hafðar í fyrirrúmi. Leggja þarf þunga áherslu á að fá ábyrgð á framkvæmd heimahjúkrunar til sveitarfélagsins.

En á sama tíma þarf að þrýsta á ríkið að fjölga hjúkrunarrýmum í bænum, þau 60 rými sem verið er að byggja á Sólvangsreitnum eru engin viðbót og duga hvergi nærri til! Og höfum það hugfast að það er 6 mánaða bið eftir rými hér í Hafnarfirði!

Fólk með fatlanir – virk þátttaka í samfélaginu

Við viljum virkja fólk með fatlanir til samfélagslegrar þátttöku og tryggja val þeirra um sjálfstæða búsetu. Að boðið sé upp á heildstæða þjónustu sem sniðin er að þörfum hvers og eins. Við viljum fjölga NPA samningum, því þörfin er svo sannarlega til staðar.

Brýnt er að gott aðgengi sé fyrir alla og að Hafnarfjörður verði fyrirmyndarbær í aðgengismálum og ferðaþjónustu fyrir fólk með fatlanir. Auka þarf samráð við fólk með fatlanir til að styrkja hlut þess í ákvörðunum sem varða þjónustu þess. Tryggja þarf fjölbreytni og skapandi starf í dagþjónustu og stuðla þannig að því að auka sjálfstæði og trú hvers og eins á eigin getu. Einnig er mikilvægt að stuðla að því að til verði fjölbreytt störf fyrir fólk með mismunandi þarfir. Og fólki verði veitt viðeigandi aðlögun í starfi.

Manneskjulegur bær

Við viljum skapa manneskjulegan bæ þar sem fólkið er í forgangi. Manneskjulegt samfélag með blómstrandi mannlífi þar sem allir eiga möguleika að taka virkan þátt af þeirri reisn sem hvert okkar sem byggir þennan bæ á skilið. Það er einkar mikilvægt og að því skal stefnt með öllum tiltækum ráðum! Setjum því X við S á kjördag þann 26. maí!

Friðþjófur Helgi Karlsson
varabæjarfulltrúi og skipar 2. sætið á lista Samfylkingarinnar.

Ummæli

Ummæli