Meirihlutinn barnafjölskyldum dýr

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar:

Árni Rúnar Þorvaldsson

Í orði eru flestir sammála um mikilvægi þess að samfélagið styðji við bakið á barnafjölskyldum. Það rímar hins vegar illa við meginstefið í stefnu Sjálfstæðisflokksins, sem styður helst við bakið á þeim sem minnst þurfa á því að halda. Á landsvísu birtist sú stefna m.a. í því að barna­bætur lækka og skattar eru lækkaðir á þá efnamestu. Hafnfirskar barnafjölskyldur fara heldur ekki varhluta af þessari stefnu Sjálfstæðis­flokks­ins.

Hafnarfjörður dýrastur á höfuðborgarsvæðinu

Samkvæmt samantekt fjármálasviðs Reykjavíkurborgar á gjaldskrám sveit­ar­félaga er Hafnarfjörður dýrasta sveitar­félagið á höfuðborgarsvæðinu fyrir barnafjölskyldur. Í stuttu máli má segja að í öllum þeim sex tilvikum sem fjármálaskrifstofan skoðar er Hafnarfjörður dýrastur nema í tveimur tilvikum þar sem gjöldin eru næsthæst. Það má því með sanni segja að sam­an­burðurinn komi ekki vel út fyrir Hafnarfjörð og þann meirihluta sem nú stýrir málum. En verst er þetta að sjálfsögðu fyrir barnafjöl­skyldur í bænum sem þurfa að súpa seyðið af þessari stefnu.

Bein afleiðing af stefnu Sjálf­stæðis­flokksins

Það ástand sem samantektin leiðir í ljós er bein afleiðing af þeirri stefnu Sjálfstæðisflokksins að leggja áherslu á að lækka álögur helst á það fólk sem minnst þarf á því að halda, sbr. smá­vægilegar lækkanir á útsvari sem skila sér mun betur til tekjuhárra en þeirra sem hafa lægri tekjur. Björt framtíð hefur í meirihlutasamstarfinu hér í Hafnarfirði lagt blessun sína yfir þessa stefnu og þróun. Það er mikilvægt að víkja af þessari leið og gera Hafnarfjörð aftur að eftirsóknarverðum bæ fyrir barnafjölskyldur. Hafnfirskar barna­fjölskyldur eiga einfaldlega betra skilið.

Í kosningum í vor hafa kjósendur tækifæri til þess að snúa af þessari vegferð með því að kjósa til áhrifa flokka sem hafa hag barnafjölskyldna að leiðarljósi. Samfylkingin leggur í öllum sínum störfum áherslu á að bæta hag barnafjölskyldna með því að tryggja þeim viðeigandi þjónustu og lækka álögur á þær eins og mögulegt er.

Árni Rúnar Þorvaldsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í fjölskylduráði

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here