Hvað vil ég upp á dekk

Sigurður Pétur Sigmundsson skrifar

Sigurður Pétur Sigmundsson

Ég ákvað að taka 4. sætið á Bæjarlistanum, nýju framboði hér í bæ. Ég geri það vegna þess að þetta er góður og öflugur hópur sem hefur mikinn áhuga á að vinna í þágu hagsmuna bæjarbúa. Legg fram mína reynslu og þekkingu í púkkið sem ég vonast til að komi að gagni. Mín starfsreynsla snýr einkum að opinberum rekstri og stjórnsýslu, vinnumarkaðsmálum, málefnum fatlaðra, gerð fjárlaga, rekstraráætlana og úttekta. Þá hef ég verið virkur í starfi íþróttahreyfingarinnar í áratugi og hef mikla trú á forvarnargildi íþrótta- og æskulýðsstarfs. Hef lengi haft áhuga á sveitarstjórnarmálum og unnið töluvert á þeim vettvangi. Vann m.a. mikið fyrir Akureyrarbæ og sveitarfélögin í Eyjafirði á árunum í kringum 1990, var varabæjarfulltrúi í Garðabæ 1994-1998 og á líðandi kjörtímabili hef ég setið í nefnd um byggingu hjúkrunarheimilis við Sólvang og jafnframt verið varamaður í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar.

Ég hef áhuga á fjölmörgum umbótarverkefnum í Hafnarfirði en legg einkum áherslu á eftirfarandi:

1. Treysta enn frekar fjárhags- og rekstrarstöðu Hafnarfjarðarbæjar. Ráðinn verði faglegur bæjarstjóri með reynslu af rekstri en ég tel að mjög vel hafi tekist til í þeim efnum síðast.

2. Ráðist verði af fullum krafti í að fá fram nauðsynlegar breytingar á Reykjanesbrautinni í gegnum bæinn til að greiða betur fyrir umferð og tryggja öryggi.

3. Fylgja eftir framkomnum hugmyndum um endurskipulag miðbæjarins og svokallaðs 5 mínútna svæðis. Tel mjög mikilvægt að mótuð verði heildstæð stefna í skipulagsmálum bæjarins til lengri tíma með yfirskriftinni „Hafnarfjörður 2030“.

4. Hafnarfjarðarbær vinni að því í samstarfi við byggingarverktaka og lánastofnanir að gera ungu fólki kleift að kaupa sína fyrstu íbúð á ódýru verði. Þetta er hægt ef allir aðilar eru tilbúnir til að slá af álagningu sinni. Stofnað yrði félag sem myndi halda utan um samningagerð og skilyrði gagnvart íbúum.

Sigurður Pétur Sigmundsson
hagfræðingur og er í 4. sæti Bæjarlistans.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here