fbpx
Sunnudagur, september 8, 2024
HeimUmræðanGlapræði í Gjótunum

Glapræði í Gjótunum

Meirihlutinn í Hafnarfirði setur borgarlínu á ís

Hraunin í Hafnarfirði eru eitt af þremur svæðum sem mynda hina hafnfirsku borgarlínukeðju. Í kjölfar Hraunanna kemur miðbærinn og þar á eftir hafnar­svæðið. Á þessum svæðum er einstakt tækifæri til þess að byggja upp nútíma­lega, þétta og blandaða byggð sem hefur á sér annan brag og nútímalega sam­setn­ingu samgöngumáta en almennt á höfuð­borgarsvæðinu.

Forvinnan að uppbyggingu á Hraunum var góð og fagleg þar sem unnið var ítar­legt rammaskipulag með metnaðar­fullum markmiðum um vandaða byggð. Nýverið var lögð fram deiliskipulags­til­laga að fyrsta reitnum á svæðinu: Gjót­urnar. Sú skipulagstillaga er harkaleg U-beygja frá fyrri tillögu.

Helstu breytingarnar eru:

  • Hæðir húsa eru stórauknar, úr fjögurra til sex hæða byggð upp í tíu hæðir. Þetta eykur skuggamyndun á svæðinu og minnkar lífsgæði bæði íbúa og gesta.
  • Rými fyrir verslun og þjónustu er skert verulega sem minnkar gæði byggð­arinnar þar sem þar verða í kjölfarið færri vinnustaðir og minni þjónusta.
  • Bílastæðamagn er fjórfaldað. Hér er notast við úthverfaviðmið og horfið frá hug­myndafræði borgarlínu.
  • Einkabíllinn er settur í fyrsta, annað og þriðja sætið í hverfinu. Annað er skör neðar.
    Samgöngumiðað skipulag miðar að því að gera umhverfið mannvænt þannig að gangandi vegfarendur fá besta rýmið, þá hjólandi, svo notendur almennings­sam­ganga, því næst vöruflutningar og loks er einkabíllinn í fimmta sætinu. Bílmiðað skipulag, eins og ofangreint er andstæða þess.

Á suðurhlið reitsins til móts við borgar­línu og síðdegissól er nær ekkert svæði fyrir gangandi vegfarendur. Gang­brautir eru þröngar 80 cm ræmur. Þar á eftir kem­ur bílastæði þar sem bílar skaga inn á gang­brautina, þá kemur auka akvegur fyrir bílastæði, annað bílastæði og þá loks almennilegur göngu/hjólastígur. Fram kemur í útskýringu að einhvers stað­ar langt inn í framtíðinni komi einhvern tímann borgarlína.

Þetta skipulag er yfirlýsing um að ann­að hvort verði ekki biðstöð borgarlínu fyrir framan þetta svæði eða að Hafnar­fjörður ætli sér að byggja umtalsvert verri umgjörð um borgarlínu en önnur sveitar­félög á höfuðborgarsvæðinu.

Til þess að gera lesendum auðveldara að glöggva sig á muninum á vönduðum þéttingarreit við borgarlínu og því sem Hafnfirðingum er boðið upp á í Gjótunum er rétt að skoða til samanburðar sam­keppnistillögu um uppbyggingu í kring­um Orkuhúsið í Ármúla. Í Ármúlanum sést hvar uppbyggingin liggur að borgarlínu og gangandi vegfarendum er gefið rými til athafna. Í skipulagstillögu um Gjóturnar er gangandi vegfarendur því sem næst úthýst.

Hafnfirðingar eiga betri bæ skilið en þessi skipulagstillaga býður upp á. Von­andi verður beygt af núverandi villuslóð og stigin gætnari spor með hag framtíðaríbúa bæjarins í huga.

Skipulagstillaga – Gjótur

Úr skipulagstillögu Hraun-Gjótur

Skipulagstillaga að þéttingarreit borgarlínu í Hafnarfirði. Blönduð byggð með 485 íbúðum. Bílastæði og akbraut býr til skjaldborg utan um verslanir og gerir svæðið óaðgengilegt og óaðlaðandi fyrir gangandi, hjólandi, farþega almenningssamgangna og raunar líka akandi. Engin tilraun gerð til þess að tengja svæðið við borgarlínu. Sólríkasta svæðið er tekið frá fyrir bílastæði.

Suðurlandsbraut ­­- hugmyndasam­keppni

Úr hugmyndasamkeppni Suðurlandsbraut

Hér er til samanburðar sigurtillaga í hug­mynda­samkeppni við Suðurlands­braut (reitur áður kenndur við Orkuhúsið). Blönduð byggð með 450 íbúðum. Dökka svæðið fyrir miðju er almenningsrými fyrir gangandi sem flæðir að borgarlínu og opnum grænum svæðum milli húsa. Samsíða bílastæði tryggir aðgengi viðskiptavina að þjónustu.

Jón Ingi Hákonarson, oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn.
Óli Örn Eiríksson, varamaður Viðreisnar í Skipulags og byggingarráði.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2