Almenningssamgöngur

Hallur Guðmundsson skrifar

Hallur Guðmundsson

Árið 2005 keyrði ég strætó. Það ár var leiðakerfi strætó umbylt og öllu nánast snúið á hvolf frá því sem áður var. Breytingunum fylgdi stóraukin tímapressa fyrir bílstjóra. Dálitlar breytingar voru gerðar og sumarið 2006 var kerfið farið að virka betur. Tímaplanið var þó mjög knappt á álagstímum. Þegar ég hætti strætóakstri haustið 2006 þá voru bílstjórar enn ósáttir við tímapressuna. Síðan þá hafa ýmsar breytingar verið gerðar á kerfinu en miðað við aksturslag á sumum leiðum virðist pressan ekkert minni.

Árið 2005 keyrðu stofnleiðir á 10 mínútna fresti á álagstímum en það var lagt af eftir nokkra mánuði. Einnig var boðið upp á næturstrætó um helgar sem einnig var lagður af eftir allt of stuttan reynslutíma.

Fækkun og hækkun

Það hefur verið mjög sérstakt að fylgjast með breytingum hjá Strætó. Maður hefur á tilfinningunni að þar starfi menn eftir Catch 22 hugmyndafræði. Hækka þarf fargjaldið því farþegum hefur fækkað og farþegum fækkar vegna þess að fargjaldið hækkar. Það sama má segja um leiðakerfið, ferðum er fækkað vegna fækkandi farþega og farþegum fækkar vegna fækkandi ferða.

Það sem skiptir mestu máli er aukin aksturstíðni á sem flestum leiðum. Með tilkomu Borgarlínu er gert ráð fyrir aukinni tíðni ferða á stofnleiðum og það gæti leitt til aukinnar aksturstíðni út í hverfin.

Það sem skiptir máli er aukin snertitíðni almenningssamgangna við íbúa sveitarfélagsins og með aukinni nýtingu má að minnsta kosti vonast til þess að fargjöld lækki.

Bætum almenningssamgöngur, bætum loftgæðin, bætum góðan Hafnarfjörð.

Hallur Guðmundsson
skipar fjórða sæti á lista Pírata í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli