fbpx
Sunnudagur, apríl 28, 2024
HeimFréttirHeilsuræktin elin.is fagnar 20 ára starfsafmæli

Heilsuræktin elin.is fagnar 20 ára starfsafmæli

„..sem segir mér að fólki líður vel í æfingunum og finnur mikinn mun á sér“

Heilsuræktin elin.is fagnar 20 ára starfsaf­mæli sínu um þessar mundir og af því tilefni tóku Fjarðarfréttir hús á Elínu Sigurðardóttir, íþróttafræðingi og eiganda.

Elín segir margt hafa breyst og starf hennar þróast mikið í gegnum árin. Hún segist búa vel að því að hafa verið afreksíþróttakona sem fór á tvenna Ólympíuleika og alltaf séð fyrir sér að starfa við eitthvað heilsutengt.

Hún segist vera þakklát og það séu forréttindi að fá að starfa við það sem maður brennur fyrir og hlakkar til að mæta í vinnuna á hverjum degi.

Spurð út í upphafið á elin.is

„Ég hafði stundað yoga með aðstoð banda í nokkur ár og það var enginn að kenna slíka tíma hér á landi. Ég byrja því sjálf árið 2004 að kenna Rope Yoga námskeið.
Það óx hratt og gekk svo vel að ég opnaði yogastöð í húsnæði á Bæjar­hrauni 2 þar sem áður var Technosport. Þar höfum við verið frá árinu 2007.“

Hvernig hafa þessi 20 ár verið?

„Í raun hefur margt breyst en ef ég ætti að nefna það helsta þá tökum við inn TRX æfingakerfið árið 2010 og bættum svo við hjólum og trampólínum árið 2016. Þannig að í dag er elin.is með námskeið sem hentar öllum eða allt frá rólegu yoga með aðstoð banda yfir í stöðvaþjálfun þar sem er mikil ákefð.

Það er góð og persónuleg stemning í hóptímum hjá okkur. Það er árangurs­ríkara að æfa með skemmtilegu fólki þar sem við erum jú flest félagsverur.“

Hvernig verða næstu 20 ár?

„Góð spurning, en ef ég ætti að horfa í kristalskúluna þá held ég að heilsugeirinn eigi bara eftir að stækka á næstu árum. elin.is ætlar að halda áfram að vaxa og veita framúrskarandi þjón­ustu tengda heilsu og vellíðan. Það er mikil umræða í þjóðfélaginu um að bæta andlega og líkamlega heilsu og þar liggur okkar þjónusta.

Mín reynsla eftir þessi 20 ár er að fólk sem til okkar kemur hefur gert þetta að lífsstíl en færri koma sem ætla í átak í stuttan tíma. Sem segir mér að fólki líður vel í æfingunum og finnur mikinn mun á sér.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2