fbpx
Fimmtudagur, febrúar 22, 2024
HeimFréttirÚtsvar og fasteignaskatttekjur hækkuðu um 2,4 milljarða kr.

Útsvar og fasteignaskatttekjur hækkuðu um 2,4 milljarða kr.

Neikvætt rekstrarfé frá rekstri

Ársreikningur fyrir Hafnarfjarðarkaupstað var lagður fram í bæjarráði í morgun.

Þar kemur fram að skatttekjur hafa aukist um 2,4 milljarða á milli ára og um 1,1 milljarð kr. frá fjárhagsáætlun.

Hafa skatttekjur á hvern íbúa hækkað úr 753 þúsund kr. árið 2018 í 957 þúsund kr. á hvern íbúa 2022.

Á sama tíma hækkuðu rekstrargjöld í A-hluta um rúma 4 milljarða og um tæpan milljarð frá fjárhagsáætlun. Munar þar mestu um hækkun launakostnaðar sem hækkaði um 1,8 milljarð á milli ára.

133% hækkun fjármagnskostnaðar

Hafnarfjarðarbær greiddi á árinu rúma 3 milljarða í fjármagnsgjöld og hefur þá verið tekið tillit til fjármagnsgjalds, langstærstur hlutinn fellur á A-hluta sveitarsjóðs eða rúmir 2,3 milljarðar kr. og hafði hækkað um 130% á milli ára og ef horft er til B-hluta fyrirtækjanna líka, þá hækkaði fjármagnskostnaðurinn um 133% eða um rúman 1,7 milljarð kr.

Enn mikill hagnaður Vatnsveitu og Fráveitu

Tekjur vatnsveitu og fráveitu eru þjónustugjöld og því gilda allt aðrar reglur um þær en skatttekjur.

B-hluta fyrirtækin eru ekki gerð upp sérstaklega í ársreikningi og nú er t.d. ekki hægt að sjá hverjar tekjur og gjöld þessara fyrirtækja eru en fram kemur að hagnaður af Vatnsveitu, Fráveitu og Hafnarsjóði er tæpur 0,9 milljarður kr. og er hagnaður Vatnsveitu 188,7 milljónir kr. og hagnaður Fráveitu er 437,6 milljónir kr. Það ber að skoða í ljósi þess að tekjur Vatnsveitunnar 2021 var 475 milljónir kr. og tekjur Fráveitunnar var 903 milljónir kr.

Væri fróðlegt að vita hvers vegna tekjur og gjöld B-hluta fyrirtækjanna er ekki birtur eins og undanfarin ár.

255 milljón kr. hagnaður af A-hluta

Þrátt fyrir mun hærri skatttekjur en áætlað hafði verið þá er rekstrarniðurstaða A-hluta aðeins jákvæð um 254,7 milljónir kr. og rekstrarniðurstaða samstæðunnar 872,5 milljónir kr.

Skuldir hækka

Skuldir og skuldbindingar A-hluta hækka um 7,8 milljónir kr. og heildarskuldir hækka úr 51 milljarði kr. í tæpa 56,5 milljarða kr. Eru langtímaskuldir A- hluta 28.4 milljarðar kr.

Skuldahlutfall Hafnarfjarðarkaupstaðar var í árslok 2022 132% og hafði lækkað úr 144% í árslok

Neikvætt handbært fé frá rekstri

Handbært frá rekstri er neikvætt sem er mikil umbylting frá árinu 221 þegar það var jákvætt um tæpa 3,8 milljarða. Í lok árs 2022 var það hins vegar neikvætt um tæpan 4,1 milljarð kr. fyrir A-hluta en þegar tekið hefur verið tillit til B-hluta fyrirtækjanna þá er handbært fé „aðeins“ neikvætt um tæpa 2,3 milljarða kr.

Veltufé frá rekstri fyrir A-hluta tæplega 122,2 milljónir kr. en þegar tillit hefur verið tekið til B-hluta fyrirtækjanna er veltuféð jákvætt um rúman 1,7 milljarð kr.

Veltufé frá rekstri sýnir hversu mikið fjármagn sveitarfélagið hefur til ráðstöfunar af hefðbundnum og árlegum rekstrartekjum til greiðslu afborgana af skuldum og til fjárfestinga þegar allur beinn rekstrarkostnaður hefur verið greiddur. Er veltufé frá rekstri talið mikilvægasta lykiltalan til að bera saman rekstur sveitarfélaga.

Fræðslumál og félagsþjónustan kosta mest

Alls fer 80,7% allra skatttekna í fræðslu- og uppeldismál annars vegar og félagsþjónustu hins vegar. Þar á eftir koma íþrótta- og æskulýðsmál með 9,6%

  • Fjárfestingar á árinu 2022 námu 3,3 milljörðum króna sem er 2% lækkun milli ára.
  • Heildareignir í lok árs voru alls 84,6 milljarðar króna og jukust um 11,1 milljarða króna á milli ára.
  • Lífeyrisskuldbindingar nema tæplega þriðjungi heildarskulda og skuldbindinga sveitarfélagsins.
  • Eigið fé nam 28,2 milljörðum króna í árslok og eiginfjárhlutfall var 33,3%.
  • Íbúar Hafnarfjarðar voru 30.508 hinn 1. desember 2022 samanborið við 29.742 árið áður sem er íbúafjölgun um 766 eða 2,6%.

Bæjarstjóri segir niðurstöðuna mjög jákvæða

„Afkoma bæjarsjóðs er ívið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og góður afgangur er af rekstrinum. Þetta er mjög jákvæð niðurstaða þar sem rekstur sveitarfélaga er krefjandi um þessar mundir,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar í tilkynningu til fjölmiðla.

„Í Hafnarfirði á sér stað mikil uppbygging nýrra íbúða- og atvinnuhverfa sem kallar á mikla innviðauppbyggingu. Slíkur vöxtur er kostnaðarsamur til skamms tíma en mikilli fjölgun bæjarbúa og þúsundum nýrra starfa mun síðar fylgja umtalsverð tekjuaukning fyrir bæjarfélagið. Samhliða þessum mikla vexti þarf áfram að gæta aðhalds og tryggja sjálfbæran rekstur grunnþjónustu. Nú, þegar verðbólgan er komin á skrið, kemur sér vel að heildarskuldir sveitarfélagsins hafa ekki aukist að raunvirði frá árinu 2014 eins og skýrlega má sjá á sílækkandi skuldaviðmiði bæjarins. Því má segja að fjárhagur bæjarins sé sífellt að verða traustari,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri ennfremur.

Ársreikninginn, sem lagður verður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í næstu viku, má lesa hér.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2