Laugardagur, júlí 12, 2025
HeimFréttirHvað varð um peningana? Stjórn Frjálsíþróttadeilda FH óskar upplýsinga frá bæjarráði

Hvað varð um peningana? Stjórn Frjálsíþróttadeilda FH óskar upplýsinga frá bæjarráði

Sigurður P. Sigmundsson hefur ítrekað beiðni Frjálsíþróttadeildar FH um m.a. ráðstöfun aðalstjórnar FH á 162 milljónum til einstakra kröfuhafa.

Sendi hann beiðnina til formanns bæjarráðs 19. maí sl. og ítrekaði beiðnina í dag til Sigurðar Nordal, sviðsstjóra stjórnsýslusviðs og segist ekki hafa séð málið tekið fyrir í bæjarráði.

Greinilegt er að kurr er um ráðstöfun aðalstjórnar á fjármunum vegna kaupa Hafnarfjarðarbæjar á Skessunni.

Bréfið er eftirfarandi:

Frjálsíþróttadeild FH óskar eftir upplýsingum frá bæjarráði Hafnarfjarðar um eftirfarandi, með vísan til upplýsingalaga:

      1. Sundurliðun á ráðstöfun aðalstjórnar FH  á kr. 161.633.759,- til einstakra kröfuhafa með vísan í samþykkt bæjarráðs Hafnarfjarðar 20.febrúar 2025.
      2. Sundurliðun á ofangreindri upphæð til greiðslu skulda aðalstjórnar FH og einstakra íþróttadeilda félagsins.
      3. Sundurliðun á ráðstöfun svokallaðra fyrirframgreiðslna að upphæð 333,3 m.kr. til aðalstjórnar FH vegna kaupa bæjarins á Skessunni.
      4. Hefur Hafnarfjarðarbær tilnefnt áheyrnarfulltrúa sem hafa skal rétt til setu á stjórnarfundum aðalstjórnar FH með vísan í viðauka sem er hluti af samkomulagi bæjarins og FH um kaupin á Skessunni svo og fylgt eftir þeim kröfum sem settar eru fram í viðaukanum en þar segir í lið 2: ,,Skal breytingin m.a. kveða á um að aðalstjórn viðkomandi félags skuli setja reglur um fjárreiður og meðferð fjármuna sem gerðar skulu opinberar á heimasíðu félagsins. Í slíkum reglum skal m.a. kveðið á um hvers konar fjárskuldbindingar deilda skuli leggja til samþykktar hjá aðalstjórn félagsins. Einnig að aðalstjórn félagsins hafi eftirlit með fjárhag deilda og annarra starfseininga félagsins”.

Greinargerð

Á fundi fimmtudaginn 20.febrúar 2025 samþykkti bæjarráð Hafnarfjarðar framlagðan kaupsamning ásamt viðauka um kaup bæjarins á Skessunni af FH sem síðar var staðfest í bæjarstjórn. Í kaupsamningnum er gert ráð fyrir að umsamið kaupverð sé 1.190 m.kr. Þar af er búið að greiða 333,3 m.kr. og svo mun bærinn yfirtaka áhvílandi lán að upphæð 695 m.kr. Þá eru eftirstöðvar kaupverðs 161.633.759 kr. sem skulu greiðast til Aðalstjórnar FH. Samningurinn var svo undirritaður af báðum aðilum 3.mars 2025. Þar sem um ráðstöfun skattfjár bæjarbúa er að ræða er mikilvægt að fyrir liggji upplýsingar um það hvernig þessum fjármunum var varið. Óskað er eftir svörum sem fyrst.

Kveðja, Sigurður P. Sigmundsson, formaður frjálsíþróttadeildar FH

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2