Grænir frumkvöðlar framtíðar (GFF) er fræðsluverkefni hjá Matís sem ætlað fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla. Markmiðið er að fræða nemendur um áhrif loftslagsbreytinga á hafið og lífríki þess, sjálfbærni og nýsköpun á nýstárlegan og skemmtilegan hátt. Verkefnið er opið öllum skólum landsins og hefur Matís opnað fyrir skráningar fyrir skólaárið 2022- 2023.
Verkefnið Grænir frumkvöðlar framtíðar fór í fyrsta sinn fram á síðasta skólaári með glæsilegum árangri. Tilgangur GFF er að vekja áhuga og efla þekkingu barna á loftslags- og umhverfismálum í þeim tilgangi að virkja þau til baráttunnar gegn loftslagsvánni og hvetja þau til grænnar nýsköpunar, vel tókst til á síðasta skólaári og var markmiðum svo sannarlega náð.
Verkefnið fer fram í skólum undir leiðsögn kennara og hægt er að staðfæra verkefnin eftir þörfum hvers og eins skóla. Verkefninu er skipt í fjórar vinnustofur, vettvangsheimsóknir og MAKEathon. Vinnustofurnar innihalda fræðilega umfjöllun og verkefni, vettvangsheimsóknirnar eru í sjávarútvegsfyrirtæki og MAKEathonið er nýsköpunarkeppni.
Eftir vinnusaman vetur síðastliðið skólaár var hápunktinum náð í MAKEathon nýsköpunarkeppni skólanna, þar valdi hver þátttökuskóli, Nesskóli í Neskaupstað, Árskóli á Sauðárkróki og Grunnskóli Bolungarvíkur sitt framlag til landskeppni Grænna frumkvöðla framtíðar. Úrslitin voru kynnt í Nýsköpunarvikunni. Verkefnið heppnaðist vel og voru nemendur, kennarar og verkefnastjórar ánægðir með árangurinn.