Tilraun með skilnaðarráðgjöf

Frá undirritun samningsins. F.v.: Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra og Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbær. Fyrir aftan eru Gyða Hjartadóttir og dr. Digrún Júlíusdóttir.

Félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, og bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, Rósa Guðbjartsdóttir, rituðu á fimmtudag undir samkomulag um þátttöku bæjarins í tilraunaverkefni á vegum ráðuneytisins um framkvæmd skilnaðarráðgjafar. Hafnarfjarðarbær mun því, í samstarfi við ráðuneytið innleiða og þróa nýtt vinnulag sem hefur að markmiði  að koma í veg fyrir og/eða draga úr ágreiningi foreldra í skilnaðarferli.

Verkefnið snýr annars vegar að aðgangi foreldra í skilnaðarferli að rafrænu námskeiði og hins vegar að viðtalsráðgjöf sérfræðings fjölskylduþjónustu. Markmið þess er að innleiða og þróa nýtt vinnulag með áherslu á félagslega ráðgjöf í skilnaðarmálum.

„Ég er mjög ánægður með viðbrögð sveitarfélaga við nýkynntu tilraunaverkefni um ráðgjöf við skilnað foreldra, eitthvað sem skiptir miklu máli fyrir þau börn og þær fjölskyldur sem það ganga gegnum. Í verkefninu felast fyrirbyggjandi aðgerðir til hagsbóta fyrir börn og fjölskyldur sem hafa sýnt sig að hafi jákvæð áhrif á andlega heilsu þeirra og virðist draga úr þeim tíma sem ákveðnir erfiðleikar í kjölfar skilnaða ganga yfir,” sagði Ásmundur Einar við undirritunina.

Að danskri fyrirmynd

Verkefnið er að danskri fyrirmynd, en eftir nýlegar breytingar á dönskum skilnaðarlögum þurfa allir foreldrar, sem sækja um leyfi til skilnaðar að borði og sæng, og eiga saman börn undir 18 ára aldri, að taka námskeið um áhrif skilnaða á börn. Samkvæmt rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið hefur sú framkvæmd þegar gefið mjög góða raun, en andleg líðan foreldra sem tekið hafa námskeiðið er merkjanlega betri en þeirra sem gerðu það ekki á rannsóknartímabilinu. Þá hefur námskeiðið ýtt undir betri foreldrasamvinnu og meðal annars leitt til þess að foreldrar sem gengið hafa í gegnum umrætt námskeið taka töluvert færri veikindadaga frá störfum sínum en ella. Allt þetta bendir til þess að námskeið sem þetta komi foreldrum og börnum þeirra til góða.

Til að byrja með verða tilraunaverkefni hérlendis sett af stað í samstarfi við nokkur sveitarfélög. Hafnarfjörður er þeirra fyrst til að rita undir formlegt samkomulag. Ef vel tekst til mun svo litið til þess hvernig beri að útfæra verkefnið til framtíðar.

Fleiri sveitarfélög munu á komandi misserum hefja innleiðingu við hið nýja verklag. Félagsmálaráðuneytið tryggir innleiðingu verkefnisins með greiðslu kostnaðar vegna samninga, annars vegar við danska fyrirtækið Samarbejde Efter Skilsmisse og hins vegar við íslenska sérfræðinga sem hafa munu umsjón með innleiðingu verkefnisins á Íslandi, þ.m.t.  þýðingu efnis, fræðslu og handleiðslu til starfsmanna.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here