fbpx
Laugardagur, nóvember 2, 2024
target="_blank"
HeimFréttirSungið hástöfum með Friðriki Dór og Jóni á 50 ára afmæli Víðistaðaskóla

Sungið hástöfum með Friðriki Dór og Jóni á 50 ára afmæli Víðistaðaskóla

Skólinn var um tíma fjölmennasti skóli landsins

Það var hátíðisdagur í Víðistaðaskóla í morgun en skólinn fagnar nú 50 ára afmæli sínu. Hátíðin var þó aðeins með heimafólki vegna kórónuveirunnar en vel var að henni staðið, skólinn skreyttur í tilefni tímamótanna og allir í hátíðarskapi.

Skólinn fékk Grænfánann afhentan, á afmælisdeginum og á degi náttúrunnar en þetta var í fimmta sinn sem skólinn fær grænfánann fyrir störf sín að umhverfismálum.

Umhverfisnefnd skólans tók við fimmta Grænfána skólans.

Á afmælishátíðinni ávarpaði Hrönn skólastjóri viðstadda og sagði í grófum dráttum sögu skólans.

Skólinn var stofnaður 16. september 1970 og þá var fyrsti skóladagurinn hjá nemendum. Var skólinn þriðji grunnskóli bæjarins, en fyrir voru Lækjarskóli og Öldutúnsskóli. Nemendur úr skólanum komu úr norðurbæ og vesturbæ Hafnarfjarðar. Voru nemendur í upphafi 326, í 1.-4. bekk og fjölgaði hratt í skólanum, húsnæðið varð allt of lítið en flestir voru í skólanum um 1977-8 er nemendur voru 1.023 og var Víðistaðaskóli þá fjölmennasti grunnskóli landsins, kennt á laugardögum og skólinn þrísetinn.

Fyrsti skólastjórinn var Hörður Zóphaníasson sem var í því embætti í 22 ár, Eggert Leví var skólastjóri í 2 ár, Sigurður Björgvinsson í 19 ár og Hrönn Bergþórsdóttir tók við skólastjórninni 2013.

Starfsmenn skólans eru nú um 120 en leiðarljós skólans eru Ábyrgð – Virðing – Vinátta og er áhersla lögð á nemendalýðræði og fjölbreytileika nemenda í skólanum.

List- og verkgreinum hefur alltaf verið haldið á lofti í skólanum og hefð er fyrir leiksýningum og  óperum á fyrri árum sem hafa þróast út í að sýndur er söngleikur ár hvert af nemendum í 10. bekk.

Öflugt þróunarstarf er í skólanum þar sem unnið er að margvíslegum viðfangsefnum.

Fyrsta foreldrafélag við grunnskóla í Hafnarfirði var stofnað við Víðistaðaskóla 24. mars 1971. Sagði Hrönn að foreldrafélagið hafi ávallt síðan stutt vel við skólastarfið og einstaklega gott samstarf hafi verið á milli þess og skólans. Eitt af fyrstu verkum Foreldrafélagsins var einnig að efna til hugmyndasamkeppni um merki skólans en það var árið 1972. Móðir eins nemandans, Erla Júlíusdóttir, auglýsingateiknari hannaði merkið sem varð fyrir valinu og er enn í dag merki Víðistaðaskóla.

Hrönn Bergþórsdóttir skólatjóri ávarpar gesti.

„Ég hlakka til að taka þátt í skólastarfinu hér í Víðistaðaskóla áfram næstu árin og sjá starfið vaxa og dafna á nýjum tímum þar sem við erum í hringiðu þróunar og framfara. Það eru spennandi tímar framundan og skemmtilegur afmælisdagur,“ sagði Hrönn Bergþórsdóttir skólastjóri.

Fulltrúi Foreldrafélagsins færði skólanum blómagjöf en henni fylgdi jafnframt gjafabréf fyrir kennslubúnaði.

Bæjarstjóri færði skólanum blómvönd.

Bæjarstjórinn í Hafnarfirði, Rósa Guðbjartsdóttir, færði skólanum blómvönd frá Hafnarfjarðarbæ en Rósa var sjálf nemandi við skólann. Sagði hún skólann einkennast af starfsgleði og sköpun.

Gríðarleg stemning

Friðrik Dór og Jón

Þeir bræður Jón Ragnar og Friðrik Dór Jónssynir skemmtu á hátíðinni og eins og þeim er einum lagið tókst þeim að fá alla með í sönginn og á stundum náðu hressir nemendurnir næstum að yfirgnæfa þá bræður sem þó höfðu hljóðkerfi sér til hjálpar.

Það skein gleði úr augum nemenda og greinilegt að allir voru í hátíðarskapi. Allir gæddu sér á afmælisköku en síðar hurfu nemendur með kennurum í skólastofur sínar og skólastarfið gekk áfram eins og venjulega.

Fleiri myndbönd má sjá á Facebook vef Fjarðarfrétta.

Hér má sjá myndir sem ljósmyndari Fjarðarfrétta tók á afmælishátíðinni

Hægt er að kaupa ljósmyndir. Sjá hér.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2