fbpx
Laugardagur, október 5, 2024
HeimFréttirSkólamálStærðfræðiævintýri í Frakklandi

Stærðfræðiævintýri í Frakklandi

Víðistaðskóli í Erasmus+ verkefni með pólskum og frönskum skóla

Víðistaðaskóli hefur sl. tvö ár verið þátttakandi í Erasmus+ verkefni, ásamt skóla í Frakk­landi og öðrum í Póllandi. Verkefnið MATH 3.0 (Mathe­matic Amazing Trip through History) snérist um að segja sögu stærðfræðinnar og helstu upp­götvanir í gegnum tíðina.

Verkefninu á Íslandi stýrðu Sólveig Kristjánsdóttir og Stefán Helgi Stefánsson stærð­fræðikennarar. Farið var með sex nemendur til Póllands vor­ið 2017 og var sagt frá þeirri ferð hér í blaðinu sl. vor. Í nóvember 2017 komu svo kenn­­arar og nemendur frá Pól­landi og Frakklandi til Íslands og nú í maí fóru sex nemendur ásamt kennurum til Frakk­lands. Þeir nemendur sem fóru utan tóku á móti nemendum erlendis frá.

Nemendahópurinn sem tók þátt í verkefninu í Frakklandi.

Segja þau Sólveig og Stefán Helgi þetta vera frábæra reynslu, bæði fyrir kennnara og nemendur þar sem reynir á marga þætti. Íslensku nemend­urnir stóðu sig frábærlega og voru skóla og landi til sóma og báru af í kynningum á ensku. Verkefnin voru bæði hefð­bundin en einnig var hugsað út fyr­ir boxið og unnin óhefð­bundin verkefni. Verkefnum var skilað á Powerpoint, mynd­­bandsupptökum, farið í gegnum tölur í ýmsum verk­efnum, gerð voru módel og tíma­línur, vegalengdir voru mæld­ar út frá skugga frá sól og reiknuð hornastærð og sett í samhengi við ummál jarðar, skoðuð var mæling á PI út frá tilraunum, sett voru upp leikrit o.fl. Að auki hafa tengsl mynd­ast sem alltaf eru ómetanleg. Reynsla sem aldrei gleymist.

Ferðin til Frakklands

Í París

Í maí fengum við, sex stelpur úr Víðistaðaskóla, það tækifæri að fara til Frakklands í heila viku á vegum Erasmus+ og gista heima hjá Frökkum sem höfðu komið til okkar í lok síðasta árs. Við lögðum af stað snemma morguns á sunnudegi og lentum i Brussel þrem tímum síðar. Þaðan keyrðum við í leigubíl til Frakklands en á leiðinni var ótrúlega heitt. Þegar við komum þá fórum við allar í sitt hvora áttina og inn á okkar heimili. Það var mjög langt á milli allra heimilinna og sumar þurftu að taka lest í tvo klukkutíma til þess að koma í bæinn sem skól­inn var í, Charleville-Méz­iéres. Að koma var létt menn­ingarsjokk en við vorum allar gríða­lega spenntar fyrir kom­andi viku. Næsta dag mættum við i skólann sem krakkarnir eru í, heimsóttum bæjarstjórann og fórum svo i ratleik um bæinn og sáum þá mikið af honum. Á þriðjudeginum fór­um við í tívolígarð sem var alveg æðislegur. Það voru mjög stór tæki, 70 metrar fall­turn, sem aðeins einn Íslend­ingur þorði í, og fullt annað skemmti­legt! Við nutum dags­ins þótt að það væri of heitt úti fyrir sex litla Íslendinga. Það sem okkur fannst skemtilegast í ferðinni var að fara til Parísar, en það gerðum við á fimmtu­deginum. Við sáum Louvre-safnið og Sigurbogann, svo rölt­um við niður Champs-Élysées þar sem versluðum. Eftir alla peningaeyðsluna fór­um við loksins að sjá Eiffel­turnin en því miður fórum við ekki upp í hann vegna tíma­leysis því að sumir vildu frekar versla lengur, mestu von­brigði ferðarinnar. Á föstu­deginum var síðasti dagurinn okkar öll saman. Í skólanum var kveðjustund þar sem veitt­ar voru viðurkenningar fyrir stærðfræðikeppni og leikrit sem við höfðum búið til. Um kvöldið var haldið partý og enginn Íslendingur var undir áhrifum áfengis sem betur fer. Við dönsuðum fram eftir kvöldi og það var svaka stuð. Um miðnætti tókum við teppi og kosí stöff út og lögðumst niður i þurra græna grasið og fylgdumst með stjörnunum. Það var mjög gaman að eyða síðustu stundinni með æðislegum vinahópi. Laugar­dagurinn fór svo í mismunandi upplifanir með okkar fjöl­skyldum í Frakklandi. Í ferð­inni mynduðust vinabönd sem munu endast út lífið. Þetta var ógleymanleg upplifun að taka þátt í þessu verkefni sem við erum ævinlega þakklátar fyrir að hafa verið huti af.

Takk fyrir okkur.

Áróra Friðriksdóttir, Eva Bryndís Ágústsdóttir og Katla Guðnadóttir.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2