Á mörgu tekið í nýjum málefnasamningi

Lækka á álögur, greiða niður skuldir og auka framkvæmdir

Frá undirritun málefnasamningsins á Hörðuvöllum

Mélefnasamningur Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og óháðra var undirritaður á Hörðuvöllum í gær.

Flokkarnir hafa myndað með sér meirihluta en Sjálfstæðisflokkurinn fékk 33,7% atkvæða og 5 bæjarfulltrúa og Framsókn og óháðir fékk 8% atkvæða og 1 bæjarfulltrúa.

Meirihlutinn er því naumur og með aðeins 41,7% fylgi á bak við sig á meðan minnihlutaflokkarnir eru með 45% fylgi.

Málefnasafningurinn er eftirfarandi:

Bætt þjónusta, betri bær

Að loknum bæjarstjórnarkosningum 2018 hafa bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra í Hafnarfirði gert með sér samstarfssáttmála um myndun meirihluta bæjarstjórnar og áherslur við stjórnun og uppbyggingu í bæjarfélaginu á komandi kjörtímabili í góðu samstarfi við bæjarstjórn alla, starfsmenn, íbúa og fyrirtæki bæjarins.

Á undanförnum árum hefur náðst mikilvægur árangur í rekstri og fjármálum Hafnarfjarðarbæjar. Þeim fjármunum sem hagræðing og ráðdeild í rekstri skilar verður áfram varið til að greiða uppsafnaðar skuldir fyrri ára, framkvæma fyrir eigið fé í stað lántöku, lögð verður aukin áhersla á löngu tímabært viðhald og uppbyggingu innviða og að álögur og gjöld verði lækkuð á fjölskyldur og fyrirtæki. Jafnframt verður aukin skilvirkni og þjónustu af hendi bæjarfélagsins sett í forgang.

Meginhlutverk Hafnarfjarðarbæjar er að veita íbúum og fyrirtækjum þjónustu af margvíslegu tagi. Áhersla verður lögð á að styrkja enn frekar þennan þátt starfseminnar, allt frá því að leitað er til bæjarins þar til niðurstaða er fengin. Móttaka erinda og mála, skilvirk og vönduð úrvinnsla þeirra, þjónustumiðuð leiðbeining og stuðningur og tímanleg afgreiðsla verður sett í forgang. Horft verður til þess að nýta gagnvirka upplýsingatækni í þessum tilgangi, en jafnframt er mikilvægt að besta þjónusta standi öllum til boða, hvort sem hennar sé leitað eftir rafrænum leiðum eða öðrum hætti. Markmiðið er að veita framúrskarandi þjónustu.

Til þess að ná fram þeim markmiðum sem meirihluti nýkjörinnar bæjarstjórnar hefur sett sér verður hafist handa við að greina leiðir og gera tillögur um breytingar í verklagi og stjórnsýslu. Mikilvægt er að stjórnsýsla bæjarins fylgi eftir og geti stutt við áframhaldandi þróun rekstrar og fjármálastjórnar og þeim auknu áherslum settar verða á þjónustu og skilvirkni.

Hafnarfjörður er bær sem einkennist af fjölbreytileika, mannlífi og fegurð sem mikilvægt er að leggja rækt við. Í bæjarstjórn hafa íbúar kosið fulltrúa sína, sem bíður það verkefni að gera góðan bæ betri. Það er sameiginlegt markmið okkar allra.

Þjónusta, stjórnsýsla og íbúalýðræði

 • Gerð verður stjórnsýsluúttekt með það að markmiði að auka skilvirkni í stjórnkerfi bæjarins.
 • Hafnarfjörður verði leiðandi bæjarfélag í að hagnýta þá möguleika sem nútíma upplýsingatækni gefur til að bæta þjónustu við íbúa, aðgengi að upplýsingum, gagnvirk og greið samskipti og aukið samráð.
 • Aukinn verður aðgangur og kostir á þátttöku bæjarbúa og fagfólks að stefnumótun og ákvörðunum í bæjarfélaginu.
 • Leitað verði leiða til að auka lýðræðisvitund íbúa og auka fræðslu um mikilvægi þess að fólk nýti kosningarétt sinn og taki þátt í lýðræðislegri umræðu í samfélaginu.

Fjármál

 • Áhersla verður áfram lögð á ábyrgan rekstur og aðhald í útgjöldum.
 • Fylgt verður eftir umbótum á rekstrinum sem ráðist hefur verið í undanfarin ár og rík áhersla lögð á fjárhagslegt eftirlit með rekstri stofnana, áætlanagerð og innkaupastjórnun sem stuðla að hagkvæmni í rekstri bæjarins.
 • Skuldir verði áfram greiddar niður, fjármagnskostnaður þannig lækkaður og áhersla lögð á að framkvæma fyrir eigið fé bæjarfélagsins.
 • Álögur og gjöld verða áfram lækkuð með sérstakri áherslu á barnafjölskyldur.

Fjölskyldan og fólkið

 • Systkinaafsláttur á leikskólagjöldum verður aukinn og fari í 75% fyrir annað barn og 100% fyrir þriðja barn.
 • Komið verður á systkinaafslætti á skólamáltíðum og tryggt að aðgangur að næringarríkum hádegismat standi öllum börnum til boða.
 • Mótaðar verða tillögur um betri starfsaðstæður og bætt kjör leikskólastarfsfólks með það að markmiði að gera leikskóla bæjarins að eftirsóknarverðum starfsvettvangi.
 • Áfram verður innritunaraldur í leikskóla lækkaður á kjörtímabilinu þar til 12 mánaða viðmiði verður náð.
 • Allir nýfæddir Hafnfirðingar verða boðnir velkomnir við upphaf lífsgöngunnar með afhendingu krúttkörfu sem inniheldur m.a. bleyjur, samfellur, pela, smekk, bangsa og bók.
 • Skólahúsnæði verður nýtt betur og aðgangur að því aukinn í þágu samfélags í viðkomandi hverfi, með áherslu á félagsstarf eldri borgara og aðgengi þeirra að mötuneytum skólanna.
 • Heilsuefling verður fest í sessi meðal annars fyrir eldri borgara.
 • Skipulagðar verða íbúðir með þjónustukjarna fyrir eldri borgara miðsvæðis á Völlum.
 • Lokið verður við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stefnur og samþykktir bæjarins.
 • Áfram verður lögð áhersla á byggingu hjúkrunarheimila, fjölgun hjúkrunarrýma og dagdvalarþjónustu fyrir eldri borgara með áframhaldandi viðræðum við ríkið.
 • Heimaþjónusta fyrir eldri borgara verður efld og þjónustuframboð aukið.
 • Gerð verður móttökuáætlun fyrir innflytjendur, t.d. með aukinni upplýsingagjöf með margvíslegum hætti og á fleiri tungumálum en íslensku, ásamt tungumálakennslu fyrir innflytjendur.
 • Starf fjölmenningarráðs verður tekið til skoðunar með það að markmiði að það hafi styrk til að vera bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni og hagsmuni innflytjenda.
 • Styrktir verða innviðir félagslegrar þjónustu og stutt við það fagfólk sem þar starfar.
 • Hafin verður endurskipulagning á rekstri húsnæðisskrifstofu sem annast félagslega íbúðakerfið. Áfram verður unnið samkvæmt fyrri áætlun um fjölgun íbúða en reglur um forgangshópa verði teknar til skoðunar og áhersla lögð á að stytta biðlista. Forgangshópar verði fatlað fólk, örykjar, eldri borgarar og tekjulágir.
 • Hafnarfjörður hefur verið leiðandi í mótun samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) á Íslandi og mun sinna því verkefni af metnaði áfram.
 • Gerð verður greining á þörf á búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk og samhliða lögð fram áætlun um fjölgun úrræða.

Menntun og menning

 • Auknu fjármagni verður varið til sérstakra verkefna grunnog leikskóla með það að leiðarljósi að efla þróun, nýsköpun og forystu kennara við störf sín.
 • Jafnframt verður unnið með leikskólakennurum að því að skilgreina skólatíma leikskólabarna innan viðverutíma þeirra á leikskólum.
 • Leitað verður leiða til að minnka álag á starfsmenn skóla og auka stuðning til að mæta ólíkum nemendahópum.
 • Aukið verður fjármagn til frístundaheimila og félagsmiðstöðva, m.a. til búnaðarkaupa, heimanámsaðstoðar, námskeiða, hópastarfs og fræðslu.
 • Skólum verður veitt svigrúm til að ráða matráð fyrir starfsmenn.
 • Stutt verður enn frekar við viðburði og bæjarhátíðir og menningartengda hópa og styrkir auknir til menningarog ferðamála.
 • Undirbúnar verði endurbætur á Menntasetrinu við Lækinn og byggð upp starfsemi þar til framtíðar.

Íþróttir og tómstundir

 • Hækkaðir verða frístundastyrkir til barna, ungmenna og eldri borgara og frístundaakstur efldur.
 • Skipulagt verður hjólabrettasvæði, útihreyfigarður við Ásvallalaug og bætt frekar aðstaða og stuðningur til jaðaríþrótta og fjölbreytts íþróttastarfs.
 • Haldið verður áfram uppbyggingu íþróttamannvirkja í samræmi við forgangsröðun ÍBH.
 • Áhersla er lögð á að framkvæmdir við byggingu knatthúss við Kaplakrika hefjist hið fyrsta og að áætluð verklok tefjist ekki.
 • Undirbúningshópur vegna hönnunar og undirbúnings framkvæmdar við knatthús á Ásvöllum hefji störf hið fyrsta og settur verði á laggirnar starfshópur vegna uppbyggingar að Sörlastöðum.
 • Farið verður í gagngerar endurbætur á Suðurbæjarlaug, núverandi búnaður endurnýjaður og útivistarsvæði laugarinnar stækkað.
 • Undirbúin verður hönnun framtíðarskipulags við Hvaleyrarvatn sem útivistarperlu í landi Hafnarfjarðar.
 • Haldið verður áfram uppbyggingu hjólaog gönguleiða, með bættum tengingum milli hverfa, merkingum og rafrænum kortum.

Skipulag, umhverfi og umferð

 • Tryggt verður að skipulagsskilmálar í nýjum hverfum taki mið af mismunandi þörfum húsbyggjenda og fjölbreyttum möguleikum í byggingu íbúðarhúsnæðis.
 • Lokið verður við húsnæðisáætlun Hafnarfjarðar sem verði leiðbeinandi fyrir framtíðarskipulag og þróun íbúðauppbyggingar.
 • Unnið verður markvisst að því að framboð lóða undir íbúðir verði jafnan fyrir hendi hvort sem er í nýjum hverfum eða á þéttingarreitum. Fyrirliggjandi spá um þörf íbúða samkvæmt aðalskipulagi verði lögð til grundvallar og leitast við að tryggja að framboð sé ávallt í jafnvægi við eftirspurn.
 • Bætt verður skilvirkni í skipulagsmálum með áherslu á styttri afgreiðslutíma tillagna og erinda sem berast til skipulagsyfirvalda.
 • Áhersla verður lögð á að framkvæmdum ljúki við tvöföldun Reykjanesbrautar og gatnamót við Setberg og Kaplakrika verði endurgerð.
 • Fylgt verður eftir nýrri umhverfisog auðlindastefnu Hafnarfjarðarbæjar. Bæjarfélagið verði leiðandi í flokkun sorps og minni plastnotkun í starfsemi sinni.
 • Hafin verður vinna við endurbætur á á Hellisgerði og miðað við að verkinu ljúki fyrir 100 ára afmæli garðsins.
 • Stutt verður við rafbílavæðingu, m.a. með skipulagi fyrir aðstöðu fyrir hleðslustöðvar og stefnt er að því að bifreiðar á vegum bæjarins verði umhverfisvænar.
 • Áhersla verður lögð á hreinsun og fegrun umhverfis og viðhald gatna og mannvirkja bæjarins.
 • Gerð verður samgönguáætlun fyrir Hafnarfjörð og unnið að innleiðingu á nýju innanbæjarleiðakerfi samkvæmt tillögum starfshóps. Hafnarfjörður mun áfram taka þátt í samstarfi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um þróun forgangsreina.

Atvinna og ferðamál

 • Tryggt verður öflugt atvinnulíf með nægu framboði af lóðum fyrir atvinnustarfsemi.
 • Lögð verður áhersla á atvinnuþróun og tækifæri í ferðaiðnaði og sköpuð hagkvæm skilyrði fyrir fjölbreytt atvinnulíf í bænum.
 • Skipulögð verður þjónustustarfsemi við ferðamenn í Seltúni við Krýsuvík.
 • Stuðlað verður að stofnun nýrra fyrirtækja og hlúð að þeim sem fyrir eru, með áherslu á fjölbreytni, hátækni og nýsköpun.
 • Fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði verða áfram lækkaðir.