fbpx
Sunnudagur, september 8, 2024
HeimFréttirPólitíkÁ að svíkja Sörla og valta yfir Íþróttabandalag Hafnarfjarðar?

Á að svíkja Sörla og valta yfir Íþróttabandalag Hafnarfjarðar?

Stjórn Sörla sendir frá sér yfirlýsingu um forgangsröðun á byggingu íþróttamannvirkja

Stjórn Hestamannafélagsins Sörla hefur í dag sent frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt er að bæjaryfirvöld séu að traðka á eigin stjórnsýslu og segja að ef byrjað verði á knatthúsi á Ásvöllum á undan byggingu reiðhallar fyrir Sörla þá sé það ekkert annað en svik. Kemur yfirlýsingin í kjölfar þess að bæjarstjórn hefur samþykkt að ráðast í bygginu knatthúss fyrir Hauka en fram kom á bæjarstjórnarfundi að kostnaður við það væri áætlaður um 2 milljarðar kr.

Er fyrirsögn yfirlýsingarinnar „Á að svíkja Sörla og valta yfir Íþróttabandalag Hafnarfjarðar?“

Loforð um að virða forgangsröðun ÍBH

„Fulltrúar Hafnafjarðarbæjar, þ.m.t. bæjarstjóri og aðrir kjörnir stjórnendur meirihlutans hafa ítrekað sagt, bæði í ræðu og riti, að ekkert annað komi til greina af hálfu bæjarins en að virða þá forgangsröðun um byggingu íþróttamannvirkja sem samþykkt hefur verið af Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar, ÍBH.“

Samkvæmt þeirri forgangsröðun er bygging reiðhallar á félagssvæði Sörla næst á dagskrá. Segir stjórnin í yfirlýsingu sinni að Sörli hafi nú beðið í yfir 10 ár eftir að byggingin kæmist á dagskrá og segja að á þeim tíma hafi ÍBH ályktað að byggingin væri forgangsverkefni.

„Félagið er búið að vinna faglega í gegnum árin, hefur farið í gríðarlega undirbúningsvinnu, kostað rannsóknir og látið forhanna bygginguna, allt í sjálfboðavinnu. Loksins var komið að Sörla, eða hvað! Svör bæjarstjórnarmanna og nýlega undirritaður samningur um byggingu knatthúss á Ásvöllum vekja upp spurningu um að til standi að svíkja gefin loforð.“

Segir í yfirlýsingunni að ef bæjaryfirvöld ráðist í byggingu knatthúss á Ásvöllum á undan byggingu reiðhallar fyrir Sörla sé það ekkert annað en svik við gefin loforð.

Hversu marga milljarða á að setja í fótboltahús í Hafnarfirði?

„Hversu marga milljarða á að setja í fótboltahús í Hafnarfirði meðan aðrar íþróttir fá ekkert. Í Hafnarfirði eru tugir minni íþróttafélaga sem alltaf verða undir í baráttunni. Munu litlu íþróttafélögin innan ÍBH sætta sig við þetta. Fótboltahús á Ásvöllum mun sennilega soga til sín allt framkvæmdafé íþróttamannvirkja næstu 4-5 árin,” segir í yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingunni segir að bæjaryfirvöld traðki á eigin stjórnsýslu í íþróttamálum, stjórnsýslu sem þau sjálf komu upp til að koma í veg fyrir ómálefnaleg sjónarmið við byggingu íþróttamannvirkja.

„Vilja stjórnendur bæjarins ekki standa við loforðin, virða lýðræðislega og faglega vinnu sem unnin er innan ÍBH? spyr stjórn Sörla.

„Ef byrjað er á byggingu knatthúss á Ásvöllum á undan byggingu reiðhallar fyrir hestamannafélagið Sörla, eru það ekkert annað en svik. Þá hafa þeir hinir sömu kjörnu fulltrúar svikið sín loforð og svikið sína eigin íþróttahreyfingu. Og af hverju, hvaða sjónarmið ráða þar för.

Ef loforð stjórnmálamanna virðast léttvæg, hvað þá með að vera fólk orða sinna, heiðarlegt fólk, skiptir það kannski ekki máli.“

Sörli undrast tregðu bæjaryfirvalda við að gera samning um reiðhöll

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2